Þurftu að vaða ísvatn á leiðinni

Elísabet Margeirsdóttir, sigraði kvennaflokk Laugavegshlaupsins.
Elísabet Margeirsdóttir, sigraði kvennaflokk Laugavegshlaupsins. Mynd/Anna Lilja Sigurðardóttir

„Ég var að fara í mitt sjötta laugarvegshlaup og maður nær alltaf að gera aðeins betur og betur. Þetta gekk gríðarlega vel.,“ segir Elísabet Margeirsdóttir, sigurvegari kvenna í Laugavegshlaupinu. Elísabet hljóp Laugaveginn á 5 klukkutímum, 34 mínútum og fimm sekúndum.

„Aðstæðurnar voru frekar erfiðar í byrjun. Það var talsvert mikill snjór miðað við síðustu ár. Svo kom kafli þar sem hafði myndast jökulvatn sem við þurftum að vaða um 50 metra, sem ég hef aldrei séð áður á þessari leið, svo mér leist nú ekki alveg á blikuna,“ segir Elísabet en bætir við að hún kunni vel við sig við erfiðar aðstæður. 

„Mér finnst mjög gaman að hlaupa í svona veðri, roki og rigningu, ég fíla það.“

Reynslan af ofurhlaupum skilaði sér

Elísabet bætti persónulegt met sitt um 12 mínútur frá því í fyrra.  Hvert ár sem maður æfir, skilar alltaf einhverju. Maður getur bara æft ákveðið mikið en hvert ár gefur manni meiri reynslu til að byggja á,“ segir Elísabet. Í apríl í ár tók hún þátt í ofurhlaupi í Japan þar sem hún og fleiri íslendingar hlupu hringinn í kringum Fuji-fallið. Hún segir að það hlaup hafi kennt henni mikið. Það hlaup er 100 mílur og í raun eiginlega önnur íþróttagrein en ég fann að reynslan þaðan skilaði sér í þessu Laugavegshlaupi.“

Elísabet segir stemninguna hafa verið góða á leiðinni. „Það var fullt af göngufólki og allir rosa glaðir og duglegir að hvetja. Ég hljóp að mestu ein. Ég hljóp með einum manni yfir sandana en svo er maður alltaf að horfa bara á næsta rass, og vona að maður nái að saxa á forskotið,“ segir sigurvegarinn að lokum. 

mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert