Vann ólympíubrons í stærðfræði

Íslenski ólympíuhópurinn í stærðfræði á toppi Table Mountain í Höfðaborg.
Íslenski ólympíuhópurinn í stærðfræði á toppi Table Mountain í Höfðaborg.

Sigurður Jens Albertsson, 19 ára gamall nemandi úr Menntaskólanum í Reykjavík, landaði bronsverðlaunum á Ólympíuleikunum í stærðfræði, sem fara nú fram í Höfðaborg í Suður-Afríku. Annar íslenskur keppandi, Hjalti Þór Ísleifsson, fékk auk þess heiðursviðurkenningu fyrir að klára eitt dæmanna fullkomlega.

Úrslitin voru kunngjörð seint í gærkvöldi og þá afhent 49 gullverðlaun, 113 silfurverðlaun, 133 bronsverðlaun og 151 heiðursviðurkenning. Sigurður Jens er 10. Íslendingurinn til að hreppa bronsverðlaun á ólympíuleikunum frá árinu 1985 þegar Íslendingar hófu að senda lið til keppni.

Fimm úr MR og einn úr MA

Alls taka 560 nemendur frá 101 þjóðríki þátt í Ólympíuleikunum í stærðfræði í ár. Þar á meðal eru sex íslenskir piltar, því auk Sigurðar og Hjalta keppa þeir Kristján Andri Gunnarsson, Garðar Andri Sigurðsson, Dagur Tómas Ásgeirsson og Jóhann Ólafur Sveinbjarnarson. Sá síðastnefndi er nemandi Menntaskólans á Akureyri, en hinir fimm eru allir úr MR. 

Strákarnir unnu sér inn þátttökurétt með góðum árangri í stærðfræðikeppni framhaldsskólanema og Norrænu stærðfræðikeppninni. Allir nema Sigurður Jens stigu með þessu sín fyrstu spor í ólympíuliði Íslands í stærðfræði, og verður spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Sjá fyrri frétt mbl.is: Blanda af áhuga og meðfæddum hæfileikum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert