Fjórhjólamaður slasaðist illa

Þyrla Landhelgisgæslunnar
Þyrla Landhelgisgæslunnar mbl.is/Gúna

Fjórhjólamaður var fluttur alvarlega slasaður með þyrlu á Landspítala nú síðdegis. Maðurinn var á ferð með fimm öðrum þaulvönum fjórhjólamönnum, allir gríðarvel búnir að sögn lögreglu í Búðardal.

Þeir voru fjarri alfaraleið, en á vinsælum útivistarslóðum í Laugardal, inn af Hörðudal. Bæði sjúkrabíll og björgunarsveitarfólk var kallað út, en erfitt er að koma tækjum að staðnum að sögn lögreglu. Svo vel vildi hinsvegar til að þyrla Landhelgisgæslunnar var skammt undan, á leið norður í Jökulfirði, en sneri af leið og sótti manninn. Viðbragðstími var því stuttur. 

Ekki er fulljóst hvað olli slysinu en vegslóðinn lá um þurran árfarveg þar sem maðurinn kastaðist af fjórhjólinu og flaug nokkra metra að sögn lögreglu. Hann slasaðist mikið og mat læknir það svo að senda þyrfti hann rakleiðis með þyrlu á Landspítala.

Samkvæmt upplýsingum frá lækni á bráðamóttöku er maðurinn ekki í bráðri lífshættu en þó alvarlega slasaður. Ástand hans er stöðugt og verður hann á gjörgæslu fyrst um sinn.

Þyrlan er nú lögð aftur af stað til að sækja göngumann sem fannst slasaður í Hesteyrarfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert