Guðríður orðin eldri en Halldóra

Guðríður Guðbrandsdóttir er elsti Íslendingurinn sem er á lífi. Hún …
Guðríður Guðbrandsdóttir er elsti Íslendingurinn sem er á lífi. Hún varð 108 ára í maí. mbl.is/Golli

Guðríður Guðbrandsdóttir í Reykjavík, sem varð 108 ára í maí, er nú orðin fjórði elsti Íslendingur sögunnar, en Halldóra Bjarnadóttir á Blönduósi, sem dó 1981, hafði verið í fjórða sætinu síðustu átta ár. Halldóra lifði í 108 ár og 43 daga og átti Íslandsmet í langlífi allt frá 1980 til 1996. Þetta kemur fram á facebooksíðunni Langlífi.

Þær þrjár konur sem náð hafa hærri aldri en Guðríður eru Guðrún Björnsdóttir í Kanada, Sólveig Pálsdóttir í Hornafirði og Guðfinna Einarsdóttir í Reykjavík. Allar urðu þær 109 ára. Eftir tæpan mánuð verður Guðrún Jónsdóttir í Hafnarfirði 108 ára. Hún er núna næstelst og er í sjötta sæti yfir þá langlífustu.

Helgi Símonarson í Svarfaðardal hefur orðið elstur íslenskra karla, tæplega 106 ára. Georg Ólafsson í Stykkishólmi er nú sá elsti, rúmlega 105 ára.

Í viðtali sem birtist við Guðríði á afmæli hennar í maí var létt yfir afmælisbarninu þegar blaðamann og ljósmyndara bar að garði og sagðist hún hafa það gott, enda umkringd góðu fólki. Afkomendur Guðríðar eru alls 56 talsins.

Úr frétt Morgunblaðsins:

Guðríður, sem fæddist 23. maí 1906 á Spákelsstöðum í Laxárdal, býr í Furugerði 1 og kann vel við sig þar. „Það er hugsað vel um mig, mér er hjálpað á fæturna á morgnana og mér er færður upp morgunmaturinn en ég fer alltaf niður í hádegismat og fer það sjálf,“ segir hún.

Guðríður er dugleg að hreyfa sig og gengur um gangana í Furugerði til að halda sér í formi. Þá unir hún sér við að hlusta á hljóðbækur og heldur sérstaklega upp á Guðrúnu frá Lundi og Ingibjörgu Sigurðardóttur. Hún má þó passa sig að gleyma sér ekki yfir bókunum. „Ég fór að verða stirðari eftir að ég fékk þessar bækur, þá sat ég meira. Svo uppgötvaði ég að ég fékk ekki nóga hreyfingu. Ég varð að hreyfa mig meira,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert