Leitar á slóðir afa síns í hernáminu

Íslendingar eru ekki þeir einu sem hafa áhuga á ættfeðrum sínum. Englendingurinn Jon Kay ætlar að ferðast um Ísland og heimsækja þá staði þar sem afi hans, Abel Stone, kom á þegar hann gegndi herþjónustu fyrir breska herinn á hernámstímabilinu í síðari heimsstyrjöld. Kay er verkfræðingur og vinnur um þessar mundir tímabundið í álverinu í Straumsvík. Hann vill nota tækifærið til að tengjast betur lífi afa síns sem lést fyrir nærri 20 árum. Abel Stone barðist víðsvegar um Evrópu á stríðsárunum.

Kay á nokkrar myndir af afa sínum í herþjónustu hér á landi en á erfitt með að staðsetja sumar þeirra. „Ég vil ferðast til staðanna á myndunum til að finna fyrir aukinni tengingu við afa minn og þann tíma sem hann eyddi á Íslandi í hernum. Hann talaði sjaldan um síðari heimsstyrjöldina þegar ég ólst upp. Hann sagði fyndnar sögur frá þessum tíma, en sleppti því að tala um allt það hryllilega, sem hann upplifði í sex ára herþjónustu sinni. Ef ég gæti heimsótt staðina sem hann var á, þá liði mér eins og ég stæði nær honum. Ég hef nefnilega ætlað að heimsækja Ísland síðan ég var á tvítugsaldri en lét aldrei verða af því. Núna er ég svo heppinn að vera að vinna í verkefni tengdu ISAL, þannig ég get notað tímann meðan ég er hérna til að fá betri innsýn í líf afa míns með því að feta í fótspor hans hér á landi.“

Móðir Kays kemur til Íslands seinna í sumar og vonast hann til að geta farið með hana á slóðir föður hennar. „Ég held að það geti verið skemmtilegt fyrir móður mína að tengjast fortíð sinni og föður sínum í gegnum staðina sem hann var á,“ segir Jon Kay.

Var fjarri í sex ár í stríði

Abel Stone, afi Jons Kays, var á Íslandi í hálft ár frá mars 1941 fram í október sama ár en hann var í herþjónustu frá því að heimsstyrjöldin hófst þar til henni lauk. Hann var í fyrstu og níundu liðsveit Manchester-hersveitar á árunum 1939-1945. Móðir Kayes fæddist tveimur dögum eftir að stríðið skall á þannig hún á sá föður sinn sjaldan á sínum yngstu árum, þar sem hann eyddi stríðsárunum á hinum ýmsu vígvöllum Evrópu.

Stone fæddist 9. desember árið 1910 og var þriðji yngstur í níu systkina hópi. Lífið var erfitt fyrir stórar verkamannafjölskyldur í Bretlandi á fyrri hluta 20. aldar og byrjaði Stone að vinna í vefnaðarverksmiðju 14 ára að aldri en á þeim tíma var vefnaðariðnaðurinn mjög mikilvægur Manchester/Lancashire-svæðinu í Norðvestur-Englandi. Síðar byrjaði hann að versla með kol þangað til stríðið braust út.

Stone var hluti af bresku hersveitunum sem voru sendar til landamæra Frakklands og Belgíu í kjölfar innrásar Þýskalands í Pólland haustið 1939. Þýskaland réðst svo inn í Frakkland 1. maí árið 1940. Bretar misstu marga menn í sókn Þjóðverja og neyddust til að flytja herinn á brott frá meginlandinu. Í átökunum um Frakkland og Belgíu lést 12.431 breskur hermaður, 14.070 slösuðust og 41.030 voru teknir til fanga. Stone slapp með naumindum í hinu fræga undanhaldi frá Dunkirk í Frakklandi yfir til Englands. Hann komst yfir sundið á gufuknúnu hjólaskipi, en Þjóðverjar náðu að sprengja hluta hjólanna af skipinu á leiðinni, sem gerði ferðina mjög torvelda.

Brann á andliti og höndum

Í febrúar 1941 var liðssveit Stones tilkynnt að hún yrði send til Íslands. Litlar upplýsingar var að finna um Ísland á þeim tíma, en liðsforinginn tók að sér að fræða hermennina um landið með Atlasbók við hönd. Í mars sigldi hersveitin til Íslands frá Glasgow á skipinu H.M.T. Bergensfjord, norskum farþegabáti sem breski herinn hafði gert upptækan. Liðssveitin varð hluti af „Machine Gun Battalion of Iceland (c) Force“ og var í fjórum kömpum; í Reykjavík, Hafnarfirði, Akureyri og Bakkagerði. Hlutverk hennar hér á landi var að verja landið gegn mögulegri innrás Þjóðverja, en hún lagði mikla vinnu í að byggja upp varnir og telur Kay að afi sinn hafi komið að byggingu Reykjavíkurflugvallar. Sveitin var send aftur til víglínunnar í Evrópu í apríl 1941.

Að lokinni veru sinni á Íslandi barðist Stone í Frakklandi og Þýskalandi þangað til stríðinu lauk. Í júlí 1944 brann hann á andliti og höndum og sneri hann loksins heim til Englands í október 1945. Hann hlaut fjórar orður fyrir herþjónustu sína: varnarorðuna, sigurorðuna, fransk-þýsku orðuna og 1939-1945 stjörnuna. Að loknu stríðinu hóf Abel störf í efnaverksmiðju í Manchester og vann þar þangað til hann settist í helgan stein, 66 ára að aldri.

Hafi lesendur upplýsingar hvar myndirnar af kirkjunni og bresku hermönnunum eru teknar er hægt að hafa samband við Jon Kay í gegnum tölvupóstfangið hans:

jon_kay@hotmail.com

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert