Reyktu kannabis við Þjóðarbókhlöðuna

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók fíkniefni af þremur rúmlega tvítugum konum sem  voru í bifreið við Þjóðarbókhlöðuna og voru að meðhöndla kannabis skömmu eftir miðnætti. Lögreglan tók af þeim skýrslu á staðnum. 

Karl á þrítugsaldri var stöðvaður undir stýri á Snorrabrautinni á þriðja tímanum í nótt. Hann var undir áhrifum fíkniefna. Bifreiðin var á röngum skráningarmerkjum. Hann hafði áður verið sviptur ökuréttindum. Maðurinn var jafnframt eftirlýstur vegna rannsókna annarra brota.  Hann gistir nú fangageymslu og verður yfirheyrður þegar hann verður í ástandi til þess.

Um þrjúleytið var karlmaður á sama aldri tekinn úr umferð. Sá ók bifreið í Langholtshverfi.  Hann var undir áhrifum fíkniefna, sviptur ökuréttindum og hafði fíkniefni í fórum sínum.

Karl á fertugsaldri forðaði sér síðan á hlaupum út úr bifreið sinni eftir að lögreglumenn höfðu stöðvað akstur hans í Túnahverfi í Kópavogi á þriðja tímanum í nótt. Hann var handtekinn skammt frá. Maðurinn var áberandi ölvaður og hafði áður verið sviptur ökuréttindum.

Um fjögurleytið í nótt var karl á þrítugsaldri stöðvaður undir stýri í Fellahverfi. Hann var undir áhrifum fíkniefna og hafði áður verið sviptur ökuréttindum. Hann var einnig með fíkniefni í fórum sínum.

Á svipuðum tíma stöðvaði lögreglan mann á fimmtugsaldri sem ók Hverfisgötuna en hann var undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert