Segir bandarískt kjöt örugga vöru

Mynd/AFP

„Rannsóknir hafa sýnt aftur og aftur að bandarískt kjöt og kjötvörur eru heilbrigðar vörur og við trúum því að innflutningur á bandarísku kjöti til Íslands sé vel framkvæmanlegur.“ Þetta segir Paul Cunningham, talsmaður bandaríska sendiráðsins vegna fyrirspurnar mbl.is vegna ummæla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, um bandarískt „sterakjöt.“

Þá segir Paul að sendiráðið hvetji Íslendinga til þess að halda mörkuðum sínum opnum fyrir bandarískum vörum. 

Sigmundur Davíð sagði í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins síðastliðinn föstudag að 99% af kjöti sem fram­leitt er í verk­smiðju­bú­um í Banda­ríkj­un­um sé stera­kjöt, sprautað með ýmis kon­ar horm­ón­um til þess að láta skepn­urn­ar vaxa hraðar. „Svo eru þær líka fóðraðar á korni. Það veld­ur því að ýmis bakt­eríu­mynd­un er meiri í þess­um skepn­um en í öðrum. Það er brugðist við því á ýms­an hátt, til dæm­is með því að þvo kjötið upp úr ammoní­aki,“ sagði Sigmundur.

Í bæklingi frá bandarísku neytendasamtökunum kemur meðal annars fram að bandaríska verslunarkeðjan Costco bjóði neytendum upp á kjöt af dýrum sem ekki eru sprautuð með sýklalyfjum. Raunar eigi þetta við um ellefu af þrettán stærstu verslunarkeðjum Bandaríkjanna. 

Sjá frétt mbl.is af ræðu Sigmundar á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert