Snjallsími sló heimsmet á 1.634 km hraða

Frá geimskotinu á Mýrdalssandi.
Frá geimskotinu á Mýrdalssandi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Heimsmet var slegið á Mýrdalssandi í maí þegar myndstreymi hélst óslitið á ríflega 1.634 km hraða og í allt að 5,5 km hæð. Eldflaug með HTC One snjallsíma innanborðs var þá skotið upp og skotinu streymt á netið í gegnum 4G-farsímasendi frá Ericsson.

„Ericsson hefur áður mælt 4G-streymi í þotu sem flaug á 700 kílómetra hraða á klukkustund. Eldflaugarskotið er hins vegar, eftir því sem við vitum, nýtt heimsmet sé litið til ferðahraða símtækisins þegar það streymdi myndefninu óslitið með 4G-farsímabúnaðinum,“ segir Per Narvinger, yfirmaður 4G/LTE framleiðslu hjá Ericsson.

Starfsmenn Símans komu 4G-sendinum sérstaklega fyrir á Mýrdalssandi svo safna mætti upplýsingum um skotið og sýna í beinni útsendingu, en Síminn samdi við Ericsson um uppbyggingu þessara 4G-farsímasenda í fyrra og eru þeir staðsettir víða um land.

Nemar í HR smíðuðu flaugina

Meistaranemar við Háskólann í Reykjavík smíðuðu eldflaugina og bar verkefnið nafnið Mjölnir en eldflaugarskotið var fyrsta skrefið í langtímaáætlun um að nota háskerpumyndavél til að taka upp myndir af norðurljósunum.

Guðmundur Ingi Karlsson, tæknifræðingur hjá Símanum, stillti ásamt fleirum sendinn svo útsendingin héldist óslitin. „Við vorum temmilega bjartsýnir á að sambandið myndi halda. Við vorum vissir um að við næðum hluta útsendingarinnar en töldum að streymið kynni á einhverjum tíma að slitna. Það gerðist hins vegar ekki fyrr en síminn varð rafmagnslaus og flaugin löngu lent.“

Guðmundur lýsir framkvæmdinni svo: „Við fórum upp á Háfell og settum loftnetið lárétt svo eldflaugin væri inni í geislunum. Við beindum sendinum að loftinu í staðinn fyrir að ná sem stærstum hluta landsins inn í radar. Sendirinn var staðsettur tíu kílómetrum frá skotpallinum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert