Hyggst færa grunnskólunum sápukúlugróðurhús

Styrmir Kári

Brandur Bjarnason Karlsson var tuttugu og þriggja ára gamall þegar hann fór að finna fyrir því að máttur hans í höndum og fótum fór þverrandi. Nú, sjö árum seinna, er hann lamaður, bundinn við hjólastól og getur hvorki beitt höndum né fótum.

Brandur gekk í Fjölbraut í Breiðholti og Menntaskólann í Reykjavík, lauk tveimur árum í líffræði í háskóla og auk þess lagði hann stund á félags- og mannfræði. Hann var að ljúka fyrsta ári í eðlisfræði þegar hann veiktist. „Mér fannst gaman að prófa allt og er forvitinn að eðlisfari. Ég ólst upp innan akademíunnar með mömmu og svaf ekki sem krakki því afstæðiskenningin hélt fyrir mér vöku. Ég fann mig vel í eðlisfræðinni. Þá var ég hins vegar orðinn of veikur til að halda áfram.“

Veikindi Brands komu mjög óvænt upp og greining liggur enn ekki föst fyrir en hugsanlegt er að hann sé haldinn Lyme disease, sjúkdómi sem smitast við bit skógarmítils. „Ég var alla tíð fullfrískur þar til ég var orðinn 22 eða 23 ára, en þá byrjaði ég að veikjast,“ segir Brandur. „Þetta gerðist hægt og rólega. Ég missti fyrst mátt í hægri fæti, síðan hægri hendi, svo vinstri hendi og loks vinstri fæti. Einn mánuðinn gat ég gengið í hálftíma í senn, þann næsta kannski ekki nema fimm mínútur. Smám saman fór getan þverrandi, ég þurfti að hætta að spila íþróttir og svo kom að því að ég gat ekki lengur verið landvörður. Heimurinn lokaðist smám saman.“

Reynsla Brands af félagskerfinu er ekki góð. „Félagskerfið virðist líta þannig á að hafi maður einhvern sem er tilbúinn að stökkva inn í aðstæður og hjálpa manni, þá þurfi maður ekki á þjónustu kerfisins að halda. Ég er margbúinn að segja þeim að mamma er í fullu starfi, hún er virtur vísindamaður og eftirsótt í háskólastofnunum um allan heim en getur ekki farið því hún er föst hér heima með mér. Maður upplifir sig sem ankeri í tilveru annarra. Það er ekki góð tilfinning.“

Þrátt fyrir fötlunina, fer því fjarri að Brandur sitji aðgerðalaus dagana langa. Hann er með mörg járn í eldinum og málar m.a. með pensilinn í munninum. „Upp á síðkastið hef ég síðan verið að vinna að verkefni í sambandi við gróðurhús, sem ekki eru úr gleri, heldur tvöföldu plasti og með sápukúlum á milli laganna. Þetta skilar betri einangrun og þar af leiðandi betri orkunýtingu. Ef þetta gengur vel, ætlum við að reyna að búa til lokað vistkerfi inni í gróðurhúsunum. Við sem stöndum að verkefninu höfum síðan í hyggju að fara með þessi gróðurhús í grunnskólana og gefa þeim gróðurhús, svo að krakkarnir geti upplifað hvernig það er að rækta sitt eigið grænmeti.“

Ítarlegt viðtal við Brand birtist í Sunnudagsblaðinu sem kemur út um næstu helgi

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert