Hryllingur er ljúfasti hestur í heimi

Hér er Sigríður Vigfúsdóttir, einn meðlima Hryllingsfélagsins, með Hryllingi sjálfum …
Hér er Sigríður Vigfúsdóttir, einn meðlima Hryllingsfélagsins, með Hryllingi sjálfum sem er afar ljúfur. Æjatolla gaf Rúnari eiginmanni Sigríðar Hrylling í afmælisgjöf á síðasta ári.

Hryllingsfélagið var á sínum tíma stofnað í kringum stóðhestinn Hrylling, en mesta gæfa félagsins er sú að hann reyndist vera trunta. Svo segir Æjatolla Reynir Hjartarson, alráður leiðtogi félagsins, sem segir lýðræði ofmetið stjórnarfar. Gleðin er ævinlega við völd í félaginu og vorfagnaðir, hestaferðir og þorrablót eru fastir liðir og mikið lagt upp úr vísnagerð og söng. Bannað er að tala um hestinn á fundum.

Þetta er fyrst og fremst mannræktarfélag og skemmtifélag. En þetta er líka trúfélag, við erum með útskorna altaristöflu sem við mætum ævinlega með á fundi. Trúin gengur út á það að gleðin borgar sig. Við erum aldrei svo gömul, hrum eða aum að gleðin borgi sig ekki,“ segir Húnvetningurinn Reynir Hjartarson, en hann er Æjatolla í Hryllingsfélaginu, félagsskap sem stofnaður var í kringum samnefndan graðhest fyrir um áratug. „Við erum að leika okkur og á öllum fundum er bannað að tala um hestinn. En þegar við bjuggum til þennan félagsskap, þá voru allskonar félög til um allskonar stóðhesta og ef þeir urðu nothæfir þá sundraðist allt út af peningalegum hagsmunum. Ég vildi því stofna félag um stóðhest þar sem hesturinn skipti engu máli, heldur gleðskapurinn,“ segir Reynir sem fyrir um áratug keypti í félagi við nokkra vini sína hestfolaldið Hrylling hjá elsta hrossaræktarbúi landsins, Vallanesi. „Hryllingur var undan Illingi á Tóftum en Illingur varð þetta ár efstur á landsmóti í dómi fjögurra vetra fola, hann sló heimsmet. Ég vildi fá þetta hestfolald sem til var undan Illingi og Dúkku, bestu hryssu Valda í Vallanesi, en Valdi vildi ekki selja mér það og sagði að ég gæti fengið öll önnur folöld. En ég sótti það fast og hann sagði að lokum: „Það verður þá svo að vera.“

Geyma eistun úr Hryllingi

Reynir segir að snemma hafi komið í ljós að Hryllingur reyndist vera trunta og einskis virði. „En það er mesta gæfa félagsins, því ef hann hefði orðið góður þá hefði það sundrað félaginu. Við geltum hestinn og kúlurnar undan honum eru geymdar á Kjóastöðum í Biskupstungum þar sem tveir félagsmenn búa, Hjalti og Ása. Síðan gaf ég einum meðlimi Hrylling í fimmtugsafmælisgjöf, Siglfirðingnum Rúnari Marvinssyni, til að hafa sem reiðhest fyrir börn.“

En þó að Hryllingur hafi ekki reynst mikill gæðingur þá hefur hann alið af sér einstakt afkvæmi. „Litningur sonur hans er einstakur í heiminum, hann er þrílitur, rauður að framan, hvítur um sig miðjan og brúnn að aftan. Þetta á ekki að vera hægt, en talið er að fóstrin hafi verið tvö og þau hafi runnið saman í eitt.“

Reynt að steypa mér af stóli

Reynir segir að engin stjórn sé í Hryllingsfélaginu, heldur sé hann alráður Æjatolla. „Vegna þess að lýðræði er ofmetið stjórnarfar. Heppilegasta stjórnarfarið er sanngjarnt einræði, við höfum sannreynt það í þessu félagi. Um leið og við setjum á lýðræði þá fara allskonar pótintátar að halda að þeir ráði einhverju. Það er heillavænlegra að njóta lífsins undir góðu einræði. Oft hefur verið reynt að steypa mér af stóli því einn meðlimur hefur haft brennandi áhuga á að ná tökum í félaginu. Ég hef ævinlega stutt hann í sínu framboði. En félagsmenn hafa viljað hafa áfram þetta sanngjarna einræði og kosið mig.“

Ekki fá allir inngöngu

Í félagið hefur safnast fólk allsstaðar af landinu og Reynir segist vera afar þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast öllu því fólki, í gleði og söng. „Þannig kynntist ég einum mínum besta vini, Jóni á Högnastöðum.“ Af einhverjum ástæðum eru óvenju margir læknar í félaginu, en þó hafa ekki allir læknar komist inn sem viljað hafa. „Það er ekkert auðvelt að komast í þetta félag og hluturinn í hestinum kostar mismikið, eftir því hver býður í. Ég hef neitað þó nokkuð mörgum um inngöngu,“ segir Reynir og bætir við að tvær ófrávíkjanlegar reglur gildi um inngönguskilyrði í félagið. „Viðkomandi má ekki eiga heima á Reykjavíkursvæðinu og þarf að sanna að hann eða hún sé skemmtilegri en í meðallagi.“

Ljóðin mega ekki vera leir

Reynir segir að árlega séu haldnir vorfagnaðir í ólíkum landshlutum, en félagsmenn hafi einnig farið til Færeyja, Danmerkur og Þýskalands til að halda fundi. Hestaferðir og þorrablót eru líka fastir liðir og um áramót hittist fólk á Grund í Eyjafirði, þar sem lögheimili Hryllings er. „Hryllingsfélagið er mjög menningarlegt fyrirbæri, á öllum samkomum okkar kemur fólk vel undirbúið, ýmist með greinar, kvæði eða vísur, en hagyrðingar eru margir góðir í félaginu. Síðan er lesið upp og sagðar sögur, því það er margt sagnafólk í þessu félagi. Menn koma með heilu ljóðabálkana og það má ekki vera leir, það verða að vera stuðlar og höfuðstafir. Margir halda að fundirnir okkar séu fylleríssamkomur, en svo er ekki. Það er ekkert merkilegra í veröldinni en að gleðja fólkið í kringum sig og þó við látum stundum eins og fífl þá erum við trú þeirri sannfæringu okkar að lífsgleðin lengi lífið, en ef hún gerir það ekki, þá gerir hún að minnsta kosti það líf sem lifað var skemmtilegra.“

Dreymdi um að vera prestur

Reynir segist ekki vera í þjóðkirkjunni en að hann hafi alltaf ætlað sér að verða prestur í sveit, enda að hluta til alinn upp á kirkjustað, á Auðkúlu í Húnvatnssýslu. „Ég ætlaði mér að sitja þar, en ég hætti við út af röngum ástæðum, ég missti trúna. Æskuvinur minn, séra Pétur Þórarinsson, sagði að ég ætti ekki að láta það stoppa mig. En ég gerði það nú samt,“ segir Reynir og bætir við: „Þeir eru ekki fáir sem ég hefði haft gaman af að jarða.“ En hann fékk drauminn um prestsskap að einhverju leyti uppfylltan um liðna helgi þegar hann tók að sér að gifta dótturdóttur sína. Hún ku hafa verið eftirminnileg vígsluræðan hans.

Reynir eitursvalur á góðri stund í hestaferð.
Reynir eitursvalur á góðri stund í hestaferð.
Pétur, Hólmgeir og Ármann taka á í söngnum. Að baki …
Pétur, Hólmgeir og Ármann taka á í söngnum. Að baki þeim er altaristafla sem Reynir skar út.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert