Hvenær eru ummerki innbrota ótvíræð og greinileg?

Innbrot.
Innbrot. Þorkell Þorkelsson

Dæmi eru um að fórnarlömb innbrota fái ekki bætur frá tryggingafélögum þótt lögregluskýrslur staðfesti að um innbrot hafi verið að ræða. Ástæðan er sú að ummerki teljast ekki vera „ótvíræð“ eins og skilmálar kveða á um.

Í júlímánuði hafa birst tvö viðtöl á mbl.is við einstaklinga sem ekki fengu bætur frá tryggingafélagi eftir innbrot jafnvel þótt lögregluskýrslur hefðu gefið til kynna að bersýnilega hefði verið um innbrot að ræða. Júlía Hvanndal, sjálfstætt starfandi hönnuður, kom heim til sín og sá að gluggi, sem hafði verið lokaður og læstur, hafði verið spenntur upp, ferðatölvan var horfin. Þjófurinn skildi jafnframt eftir handskrifaða nótu á bjagaðri ensku til Júlíu þar sem hann bað hana afsökunar á verknaðinum. Sömuleiðis fyllti hann á kattadall. Sonur Svavars Arnar Eysteinssonar kom að tómri íbúð fjölskyldunnar hinn 2. apríl síðastliðinn þegar hann var í hádegishléi frá skóla. Þjófurinn hafði komist yfir lykil að íbúðinni frá fyrri eigendum hennar. Málið var upplýst en hluti þýfisins var ekki endurheimtur.

Í báðum tilvikum voru ekki greiddar út bætur frá tryggingafélagi með vísan til þess að ummerki skorti.

Óformleg könnun blaðamanns á skilmálum heimilistrygginga hjá nokkrum tryggingafélögum leiddi í ljós að skilyrði þess að tjón vegna innbrots fáist bætt er að „ótvíræð“ og/eða „greinileg“ ummerki séu á vettvangi. Slíkir skilmálar eru að sjálfsögðu til þess fallnir að koma í veg fyrir bótasvik. Hins vegar kalla þeir óneitanlega fram hugrenningatengsl við dæmigert innbrot í Andrésblaði, þar sem grímuklæddur maður með dökka skeggrót brýtur upp hurð með kúbeini og skilur eftir sig „ótvíræð“ ummerki í orðsins fyllstu merkingu. Þjófnaðir af heimilum geta verið af ýmsum öðrum toga, samanber dæmið hér að ofan þar sem þjófurinn hafði komist yfir lykil með ólögmætum hætti. Geirharður Geirharðsson, forstöðumaður tjónasviðs Sjóvár, segir að mat á ummerkjum innbrota fari eftir umfangi máls hverju sinni. „Í flestum tilvikum eru augljós merki og þá er enginn vafi. Það er ekki alltaf sem farið er á staðinn og fyrst og fremst er stuðst við það sem fram kemur í lögregluskýrslum.“ Í tilvikunum hér að ofan var niðurstaða lögregluskýrslu að um innbrot hefði verið að ræða en ljóst er að slík niðurstaða felur þó ekki endilega í sér að „ótvíræð“ og/eða „greinileg“ ummerki séu á vettvangi. Af þeim sökum kemur fyrir að fólk fái ekki bætur þó að lögregla segi að um innbrot hafi verið að ræða.

Spurningin er þá auðvitað hvað „ótvíræð“ ummerki þýða nákvæmlega. Í tilviki Júlíu Hvanndal þótti ekki nægilegt að lokaður og læstur gluggi hefði verið brotinn upp, miði skrifaður þar sem beðist var afsökunar á stuldinum og ketti gefið að éta. Tryggingafélagið tjáði Júlíu að hún hefði átt að loka með krækjum jafnvel þó að engir krókar væru á glugganum, sem hún sagði vera „bara venjulegan glugga, þó að hann væri gamall og lúinn“. Heimildir Morgunblaðsins herma að mat tryggingafélaga á ummerkjum innbrota geti virst sérkennilegt. Til dæmis þyki iðulega ekki nægilegt að stormjárn glugga hafi verið brotið ef engin ummerki séu á gluggakarmi. Með öðrum orðum þurfi að sjást á gluggakarminum sjálfum að glugginn hafi verið þvingaður upp.

Gífurleg fækkun milli ára

Árið 2013 var fjöldi innbrota á Íslandi 1.092. Meðalfjöldi innbrota á árunum 2010 til 2012 var hins vegar 2.047 og því nam fækkun slíkra brota milli ára 46,6%. Þessi gífurlega fækkun innbrota á rót sína að rekja til þess að á árunum 2010 til 2011 var innbrotafaraldur þar sem glæpagengi fóru nánast hús úr húsi. Þegar lögreglu tókst að uppræta þessi gengi hættu innbrotin eins og slökkt væri á eldspýtu. Einnig voru innbrotahrinur á árunum 2011-2012 sem lögreglu tókst að stöðva.

Innbrot breytast samhliða þjóðfélaginu. Í kringum aldamót voru innbrot í bíla í kringum 1.000 á ári en nokkrum árum síðar fór að draga verulega úr þessari tölu. Ástæðan er sú að geislaspilarar hættu að vera aðskildar einingar og urðu hluti af innréttingunni í nýjum bílum. Þá tóku þjófar að einbeita sér meira að því að stela GPS-tækjum sem þó voru mun sjaldgæfari en geislaspilarar. Í dag eru það helst smágerð raftæki, ferðatölvur, myndavélar, spjaldtölvur og farsímar sem þjófar ásælast. Flatskjáir eru í auknum mæli skildir eftir enda eru þeir oftar en ekki mjög stórir auk þess sem verðmæti þeirra hefur minnkað talsvert á undanförnum árum. Skartgripir njóta þó alltaf mestra vinsælda. Að sögn rannsóknarlögreglumanns sem Morgunblaðið talaði við er ljóst að innbrotsþjófar búa iðulega yfir þekkingu á verðmæti ólíkra skartgripa. Fyrir kemur að ummerki á vettvangi bendi til þess að þjófurinn hafi fengið sér sæti og valið sér sérstaklega tiltekna skartgripi til að hafa á brott með sér, skilji annað eftir. Eitt þeirra glæpagengja sem hér fóru ránshendi fyrir nokkrum árum starfaði jafnframt eftir þeirri vinnureglu að fara alltaf einungis inn í svefnherbergi húsa, láta þar greipar sópa og staldra stutt við. Gengið fór bæði í hús með öryggiskerfi og óvarin hús en hélt sig við svefnherbergin.

Athyglisvert er að hugsa til þess að ekkert ákvæði almennra hegningarlaga fjallar sérstaklega um innbrot. Innbrotsþjófnaðir varða við 244. gr. almennra hegningarlaga sem er svohljóðandi: „Þjófnaður á fjármunum eða orkuforða varðar fangelsi allt að 6 árum.“ Ákvæði 231. gr. fjallar um húsbrot – það er þegar einhver ryðst inn á heimili annars manns í heimildarleysi og neitar að fara þaðan – en ekki er ákært á grundvelli þess þegar innbrotsþjófnaðir eru annars vegar enda er litið svo á að 244. gr. tæmi sök gagnvart 231. gr.

Ólík brot, sama ákvæði

Því er hægt að ímynda sér tvö afar ólík tilvik, sem fengju sömu meðferð samkvæmt lögum. Brot manns sem stelur sokkapari úr verslun myndi varða við 244. grein um þjófnað. Innbrotsþjófur sem læðist inn í svefnherbergi sofandi manns á næturþeli og andar ofan í hálsmál hans á meðan hann seilist í armbandsúr á náttborði yrði einnig ákærður á grundvelli 244. greinar. Ljóst er að verulegur munur er á þessum brotum enda skapast mun meiri hætta í síðarnefnda tilvikinu. Ákvæðið skilur hins vegar ekki á milli þessara ímynduðu dæma. Hins vegar myndu refsiþyngingarástæður sem kveðið er á um í lögum leiða til þess að sá síðarnefndi fengi öllu þyngri dóm (auk þess sem sokkaþjófur yrði seint ákærður nema um ítrekuð brot væri að ræða). 252. gr. fjallar svo um rán en þar segir að sá sem hótar eða beitir einhvern ofbeldi í þeim tilgangi að hafa af honum fjármuni eða önnur verðmæti skuli sæta fangelsi allt að 10 árum. Alvarleg brot geta varðað 16 ára fangelsi. Því má ímynda sér dæmi þar sem þjófur brýst inn og lendir í átökum við húsráðanda. Brot hans myndi þá breytast á svipstundu úr því að varða við 244. gr. um þjófnað og falla undir 252. gr. um rán.

Innbrot.
Innbrot. Þorvaldur Örn Kristmundsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert