Ölvaður á allt of miklum hraða

mbl.is/Július

Lögregla höfuðborgarsvæðisins þurfti sem endranær um helgar að taka allmarga ökumenn úr umferð vegna þess að þeir voru undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna eða hreinlega höfðu ekki réttindi til að stjórna vélknúnu ökutæki. Þá meiddist einn lögreglumaður í átökum við drukkinn bílstjóra.

Um klukkan hálfeitt í nótt stöðvaði lögregla akstur bifreiðar á Miklubraut. Karlmaður á þrítugsaldri sat undir stýri en bifreið hans mældist á 102 km hraða þar sem hámarkshraði er 60 km/klst. Í ljós kom að maðurinn var í mjög annarlegu ástandi og þegar honum var tilkynnt um handtöku veitti hann mikla mótspyrnu. Reyndi maðurinn meðal annars að hlaupast á brott frá vettvangi.

Einn lögreglumaður meiddist í átökum við manninn sem var vistaður í fangageymslu. Tekin verður af honum skýrsla þegar hann er talin í ástandi til þess að geta veitt hana.

Án réttinda, í vímu og með vímuefni

Um klukkan átta í gærkvöldi var átján ára piltur stöðvaður á bíl sem hann ók um Borgarveg. Hann hafði aldrei fengið ökuréttindi og var auk þess undir áhrifum vímuefna. 

Á tíunda tímanum var tæplega fimmtugur karlmaður tekinn úr umferð þar sem hann ók eftir Höfðabakka. Hann hafði áður verið sviptur ökuréttindum, var undir áhrifum vímuefna auk þess sem vímuefni fundust í bifreiðinni.

Rétt fyrir tíu í gærkvöldi var maður um þrítugt tekinn úr umferð eftir að hann ók bifreið sinni eftir Reykjanesbraut undir áhrifum vímuefna.

Þá var tvítugur karlmaður tekinn úr umferð þar sem hann ók bifreið ölvaður um Kalkofnsveg um klukkan hálfeitt í nótt og kona á þrítugsaldri fyrir sömu sakir um klukkan 1.41 á Eggertsgötu í Reykjavík.

Að lokum var á fimmta tímanum í nótt karlmaður um þrítugt stöðvaður eftir að hann ók bifreið sinni eftir Salavegi í Kópavogi undir áhrifum vímuefna.

Kannabissamkvæmi í Hafnarfirði

Skömmu eftir miðnætti handtók lögregla höfuðborgarsvæðisins fjóra karlmenn á þrítugsaldri í norðurbæ Hafnarfjarðar eftir að kannabissamkvæmi var stöðvað. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvernig það bar að, að lögregla kom að samkvæminu. Þar segir hins vegar að vímuefni hafi fundist í húsinu sem enginn gesta kannaðist við auk þess sem vímuefni fundust í fórum mannanna fjögurra.

Mennirnir voru því handteknir og vistaðir í fangaklefa og verða þeir yfirheyrðir þegar af þeim rennur víman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert