„Þetta hefði auðveldlega getað verið ég“

Hér sjást tvö brottfaraspjöld síðan að Arjan ferðaðist með Malaysian …
Hér sjást tvö brottfaraspjöld síðan að Arjan ferðaðist með Malaysian Airlines frá Amsterdam til Kuala Lumpur. Mynd af Facebook

„Ég trúði þessu ekki fyrst þegar ég heyrði fréttirnar. Ég þurfti að athuga tvisvar hvort ég væri nokkuð að lesa gamlar fréttir. Síðan fór ég að velta fyrir mér, hvað hafði gerst,“ segir Hollendingurinn Arjan van der Weck, um hrap flugvélar Malaysia Airlines í Úkraínu á fimmtudaginn. Flugvélin var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur og Arjan hefur flogið þessa leið nokkrum sinnum. 

Arjan er giftur Hönnu Láru Pálsdóttur og búa þau með börnum sínum tveimur, Söru Lind og Aldar, í Delft í Hollandi.

Árásin mikið áfall

Að sögn Arjans bárust fréttir um slysið hægt og það tók tíma fyrir hann að gera sér grein fyrir því að þetta var ekki flugslys, heldur árás. „Það var mesta áfallið,“ segir Arjan. „En það geisar stríð í þriggja tíma fluglengd frá Amsterdam og við höfum að miklu leyti hunsað það.“

Það var einnig mikið áfall fyrir Arjan þegar hann heyrði hversu margir Hollendingar voru um borð vélarinnar. „Sá hópur Hollendinga sem lést á fimmtudaginn er það stór að næstum því allir Hollendingar þekkja einhvern sem var um borð, eða einhvern sem þekkir einhvern sem var um borð. Þetta var fólk af öllum þjóðfélagsstéttum, þingmaður, þekktur læknir, eigendur þekkts veitingahúss í Rotterdam og líklegast einhverjir samstarfsfélagar mínir. Ég á marga samstarfsfélaga og þekki þá ekki alla persónulega en mjög líklega hefur einn þeirra verið þarna úr fyrirtækinu þar sem ég vinn. Þessar fréttir voru því líka persónulegar fyrir mig eins og alla Hollendinga.“

Malaysia Airlines fyrsta flokks flugfélag

Arjan hefur flogið tvisvar eða þrisvar með Malaysian Airlines sömu leið og vélin sem hrapaði, frá Amsterdam til Kuala Lumpur, síðustu ár. „Ég þekkti strax flugnúmerið, en ég á ennþá brottfararspjöldin mín. Margir samstarfsfélagar mínir notast við þessa leið þar sem við störfum mikið í Asíu og Ástralíu. Þessi leið er ein besta leiðin frá Hollandi þangað. Ég myndi áætla að minnsta kosti einn samstarfsfélagi minn fljúgi þessa leið í hverri viku. Þetta hefði auðveldlega getað verið ég.“

 Að mati Arjans er Maylasia Airlines fyrsta flokks flugfélag með góða þjónustu og frábærar flugvélar. „Það er gífurlega sorglegt að þetta góða fyrirtæki lendi í því að verða fórnarlamb illgerða annarra á svona stuttum tíma.“

Sorg frekar en reiði

Að sögn Arjans er hollenska þjóðin frekar sorgmædd yfir harmleiknum en reið. „Þetta lítur út fyrir að vera ofbeldisverk en allir vita að þetta voru mistök, eins ótrúlegt og það hljómar. Þetta var ekki árás á þetta ákveðna flug, flugfélag, farþega þeirra, Holland, Malasíu eða Evrópu, heldur fléttuðumst við öll inn í átök sem við héldum að væri ekki okkar. Þar höfðum við rangt fyrir okkur,“ segir Arjan og bætir við að ríkisstjórn Hollands hafi brugðist á réttan hátt við harmleiknum. „Að mínu mati hefur ríkisstjórnin brugðist við á skynsaman hátt. Við vitum ekki hver ber ábyrgð á þessum harmleik, við munum kalla eftir réttlæti.“

Ágreiningurinn orðinn alþjóðlegur

Arjan segir að Hollendingar vonist til þess að harmleikurinn í Úkraínu á fimmtudaginn hafi einhver jákvæð áhrif á framvindu mála þar. „Nú er þetta ekki lengur svæðisbundinn ágreiningur heldur alþjóðlegur. Ef Evrópa tekur rétt á þessu og Úkraína og Rússland bregðast rétt við, gæti þetta haft jákvæð áhrif á framvindu mála.“

Að sögn Arjans hefur harmleikurinn haft mikil áhrif á daglegt líf í Hollandi. Fólk tali um fátt annað og mikið er fjallað um atburðinn í sjónvarpi og útvarpi. Einnig hafa ýmsir embættismenn komið til starfa úr sumarfríi og samúðaryfirlýsing hefur borist frá konungi og drottningu Hollands. „Einnig er fórnarlambanna minnst á opinberum atburðum víðs vegar. Ég tók t.d. þátt í kappróðri um helgina og fyrir keppnina var einnar mínútu þögn. Þetta eru litlir hlutir sem láta okkur líða betur.“

Arjan, kona hans Hanna Lára og sonur þeirra Aldar. Dóttir …
Arjan, kona hans Hanna Lára og sonur þeirra Aldar. Dóttir þeirra Sara Lind, tók myndina. Mynd úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert