Á batavegi eftir spark í höfuðið

Leikurinn fór fram á Hellissandi og var pilturinn fluttur þaðan …
Leikurinn fór fram á Hellissandi og var pilturinn fluttur þaðan með þyrlu á Landspítalann. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Knattspyrnumaður sem fluttur var með þyrlu á sjúkrahús í gær eftir líkamsárás í fótboltaleik á Hellissandi dvaldi á Landspítalanum í nótt en líðan hans var strax betri í gærkvöldi, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum fotbolti.net.

Ekki fengust upplýsingar frá Landspítalanum um líðan piltsins, en samkvæmt heimildum mbl.is var hann sleginn hnefahöggi og svo sparkað í höfuð hans þar sem hann lá í jörðinni. Upp úr sauð á lokasekúndum leiks Snæfellsness og Sindra frá Hornafirði í 2. flokki karla og lenti leikmönnum saman.

Á fotbolti.net segir að leikmaður Sindra, fæddur árið 1998, hafi misst stjórn á skapi sínu og ráðist á leikmann Snæfellsness með þessum afleiðingum. Lögreglan á Akranesi fer með rannsókn málsins og tók skýrslur af viðstöddum fram eftir kvöldi í gær. Samkvæmt heimildum mbl.is hefur formleg kæra ekki verið lögð fram í málinu.

Sjá fyrri fréttir mbl.is:

Fluttur með þyrlu eftir slagsmál

Hlaut spörk í andlitið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert