Bláa laxinn vantar hormón

Laxinn blái á sundi sem veiddist fyrr í dag.
Laxinn blái á sundi sem veiddist fyrr í dag. Guðmundur R. Erlingsson

Blái litur laxins sem veiddist í Elliðaánum fyrr í dag stafar af óeðlilegum þroska heiladingulsins. Þetta afbrigði er þekkt hjá regnbogasilungi en vanþroskunin leiðir til þess að hormónið MSH vantar, en hormónið stjórnar húðlit dýra. Þetta er mat Björns Þrándar Björnssonar prófessors í fiskalífeðlisfræði við Gautaborgarháskóla.

„Mér finnst líklegast að um svokallað kóbalt-afbrigði sé að ræða, en það er þekkt hjá regnbogasilungi. Það verður misþroskun í hluta heiladingulsins sem gerir það að verkum að hormónið MSH sem stjórnar litarfarinu vantar. Þá fær fiskurinn ekki sinn eðlilega lit heldur verður svona fölblár og þess vegna er þetta kallað kóbalt-afbrigðið,“ segir Björn Þrándur.

Aldrei heyrt um bláan lax áður

Björn Þrándur kynntist afbrigðinu í Japan þar sem það hefur verið rannsakað. Afbrigðið er mjög sjaldgæft hjá regnbogasilungi en Björn Þrándur segist aldrei hafa heyrt um slíkt hjá laxi. 

Fiskurinn virðist að öðru leyti vera heilbrigður. „Hann virðist þroskast og dafna og þetta virðist ekki draga fiskinn til dauða. Þetta er ekki bundið við fæðu eða umhverfi heldur er þetta vansköpun sem kemur örsjaldan fyrir. Þetta þekkist þó bæði í eldisfiski og villtum fiski,“ segir Björn Þrándur.

Þetta er ekki arfgengur galli að mati Björns Þrándar heldur er frekar um að ræða þroskunarfræðilegt afbrigði „Þess vegna er líklegast ekki hægt að ala bláa laxa þó svo einhver vildi það, alla veganna ekki í augnablikinu,“ segir Björn Þrándur.

Fyrri fréttir mbl.is

Blái laxinn veiddur 

Björn Þrándur Björnsson, prófessor við Gautaborgarháskóla.
Björn Þrándur Björnsson, prófessor við Gautaborgarháskóla.
Laxinn var fagurblár að lit en missti lit sinn eftir …
Laxinn var fagurblár að lit en missti lit sinn eftir að hann var dreginn á land. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert