Hægt að styðja hjálparstarf á Gaza

Börn verða sérstaklega illa úti í stríðinu á Gaza.
Börn verða sérstaklega illa úti í stríðinu á Gaza. AFP

Rauði krossinn á Íslandi tilkynnti í dag um tíu milljóna króna framlag til hjálparstarfs palestínska Rauða hálfmánans á Gaza og hefur nú opnað söfnunarsíma fyrir þá sem vilja styðja starfið. Hægt er að hringja í söfnunarsímana 904 1500, 904 2500 eða 904 5500 og þá dregst upphæð sem svarar síðustu fjórum tölustöfunum af símreikningi viðkomandi.

Starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans hafa hjúkrað hundruðum manna á Gaza síðustu daga við afar erfiðar aðstæður. Sjúkraflutningamenn hafa lagt sig í lífshættu við að flytja særða á spítala og stundum orðið sjálfir fyrir árásum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Rauða krossi Íslands.

Rauði hálfmáninn hefur aðstoðað fólk við að komast burt af stöðum sem hafa orðið fyrir árásum og dreift hjálpargögnum til fjölskyldna sem hafa yfirgefið heimili sín.

Rauði krossinn á Íslandi styður nú þegar áfallahjálp meðal barna á Gaza, sem veitt er í gegnum áfallahjálparstöðvar Rauða hálfmánans. Talið er að 58 þúsund börn á Gaza þurfi áfallahjálp. Fjöldi sálfræðinga bíður þess að komast inn á þau svæði þar sem mestu átökin hafa verið til þess að styðja börn og fjölskyldur þeirra.

Þá hafa íslenskir heilbrigðisstarfsmenn á vegum Rauða krossins á Íslandi undanfarið þjálfað palestínskra sjúkraflutningamenn í endurlífgun, sem gerir þá hæfari til að flytja sjúklinga við erfiðar aðstæður eins og þær sem nú ríkja á Gaza.

Fólk sem vill styðja hjálparstarfið er hvatt til þess að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins. Einnig er hægt að leggja inn á söfnunarreikning Rauða krossins á Íslandi: 342-26-12, kt. 5302692649.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert