Leggur nýjan streng

Sæstrengur tekinn á land.
Sæstrengur tekinn á land. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Hibernia Networks tilkynnir í dag um nýjan sæstreng sem félagið er byrjað að leggja yfir Atlantshaf. Hann býður upp á hraða tengingu milli fjármálamiðstöðvanna London og New York, auk almennra gagnaflutninga, og verður tekinn í notkun 2015. Bjarni K. Þorvarðarson, forstjóri Hibernia Networks, segir fjármögnun nýja strengsins lokið og allt hlutafé inngreitt. 

„Notuð er nýjasta tækni sem býður upp á verulega aukningu á bandbreidd samanborið við eldri strengi. Nýi Hibernia-strengurinn er fyrsti nýi sæstrengurinn milli Evrópu og N-Ameríku í 12 ár. Hann verður stysti sæstrengurinn yfir hafið og styttir tímann sem gögnin eru að berast,“ sagði Bjarni. 

Sæstrengurinn verður 4.600 km og fylgir stórbaugsleið. Hann liggur í sjó milli Brean á SV-Englandi og Halifax í Kanada. Hibernia Networks á strengi og ljósleiðara á landi og í sjó frá Halifax til New York. Nýi strengurinn kostar 250 milljónir dollara (28,7 milljarða).

Í eigu stofnanda Norðuráls

Spurður um tengingu Íslands til Ameríku sagði Bjarni að Ísland tengdist vestur um haf með Greenland Connect-sæstrengnum frá Landeyjasandi til Nuuk og svo til Halifax. Þar tengist hann í gegnum kerfi Hibernia til New York. Bjarni sagði að hægt væri að auka hraðann frá Íslandi með legg framhjá Grænlandi.

Hibernia Networks er í meirihlutaeigu Ken Peterson, sem stofnaði Norðurál. Það keypti tvo sæstrengi 2003 og hefur rekið þá auk þess að byggja upp víðtækt ljósleiðaranet í Evrópu, Kanada, Bandaríkjunum og víðar. Félagið er með starfsemi í Ameríku, Evrópu og Asíu. Ársveltan er um 140 milljónir dollara, eða um 16 milljarðar kr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert