Niðurstaðan náttúrunni í óhag

Við Námaskarð í Mývatnssveit.
Við Námaskarð í Mývatnssveit. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Gjaldheimtu á vegum Landeigenda Reykjahlíðar ehf. við hveri austan Námafjalls og við Leirhnjúk í Mývatnssveit var hætt um hádegisbil í dag eftir að lögð var fram tilskilin trygging vegna lögbanns sem sýslumaðurinn á Húsavík samþykkti í síðustu viku.

„Þessi niðurstaða er bæði íslenskri náttúru og ferðaþjónustu landsmanna í óhag og því óskynsamleg. Við hana verður ekki unað til lengdar, það mun koma betur og betur í ljós strax í sumar,“ segir í yfirlýsingu stjórnar landeigenda Reykjahlíðar ehf.

„Því er samt vert að halda til haga að sýslumaður setti ekki lögbann á gjaldheimtuna sem slíka heldur tók hann undir það sjónarmið gerðarbeiðenda (sem eru líkt og gerðarþolandi meðal landeigenda í Reykjahlíð) að gjaldheimta á sameiginlegu landi („sameignarsvæðum“ allra landeigenda) „muni takmarka heimildir gerðarbeiðenda til nota, ráðstöfunar og umferðar á sameignarlandi þeirra.““

Viðbrögð stjórnar Landeigenda Reykjahlíðar ehf. eru til skamms tíma þau að

  • mælast nú eindregið til þess að stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja og leiðsögumenn gangi í lið með viðkvæmri náttúrunni og fari ekki með hópa ferðamanna inn á þessi landssvæði okkar.
  • draga strax úr átroðningi og áníðslu landsins. Annars er óhjákvæmilegt að loka þessum svæðum alveg.

Rökin eru eftirfarandi:

o   Eftirlit á svæðunum lagðist af í dag um leið og gjaldheimtu var hætt.

o   Slysahætta eykst að sama skapi, enda hverasvæði í eðli sínu hættusvæði og enn frekar þegar gestafjöldinn er eins og raun ber vitni. Það hafa aldrei fyrr verið jafnmargir á ferð í Mývatnssveit og undanfarnar vikur!

o   Engir starfa lengur við að tína rusl á vettvangi og þrífa það sem þrífa þarf.

„Átroðningur er gríðarlegur með tilheyrandi náttúruspjöllum. Það sést best við Víti þar sem engin gjöld voru innheimt í sumar,“ segir í yfirlýsingu landeigendanna.

„Veðurblíðan á Norðausturlandi það sem af er sumri bjargar mjög miklu. Ef við hefðum haft rigningartíð á borð við þá sem umtöluð er sunnanmegin á landinu væri ástand náttúrunnar hér þannig að varla er hægt að hugsa þá hugsun til enda. Slysahætta hefði að sama skapi stóraukist, enda er afar sleipt á hverasvæðum í votviðri og auðvelt að missa fótanna með tilheyrandi afleiðingum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert