„Þetta var engin hetjudáð“

Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst.
Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst. KristinnIngvarsson

„Þetta var nú engin hetjudáð, maður hoppaði bara aðeins út í sjóinn,“ segir Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, um þegar hann bjargaði mæðgum úr sjónum í Tyrklandi í gær.

Vilhjálmur er nú staddur í Tyrklandi í fríi og var við höfnina í bænum Izmir þegar hann sá litla stúlku detta í sjóinn. Ragnheiður Pála Ófeigsdóttir, eiginkona Vilhjálms, skrifaði um atvikið á Facebook í gær og í kjölfarið rataði sagan í fjölmiðla. Þar kom m.a. fram að hvorug mæðgnanna hefðu verið syndar heldur troðið marvaðann, þar til Vilhjálmur henti sér í sjóinn í öllum fötunum.

Vilhjálmur er nokkuð hissa á áhuga fjölmiðla og gerir lítið úr atvikinu í samtali við mbl.is.

„Fyrst datt stelpan út í sjóinn og móðirin fór á eftir henni. Fyrst horfði ég bara á en sá svo að þær gátu ekki bjargað sér upp. Þá fór ég ásamt fleirum ofan í og hjálpaði þeim í land,“ segir Vilhjálmur.

Að sögn Vilhjálms voru konan og stúlkan þakklátar bjargvættum sínum og var í lagi með þær. „Það var í lagi með þær enda tók þetta svo fljótt af.“

Sjá fyrri frétt mbl.is: Bjargaði mæðgum frá drukknun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert