Minntust fórnarlamba voðaverkanna í Útey

Að sögn Stefáns var athöfnin falleg og látlaus.
Að sögn Stefáns var athöfnin falleg og látlaus. Árni Sæberg

Ungir jafnaðarmenn minntust fórnarlamba voðaverkanna í Útey í kvöld með minningarathöfn við Norræna húsið. Í dag eru þrjú ár síðan árásirnar áttu sér stað.

„Þetta gekk mjög vel fyrir sig og var látlaust og fallegt. Norski sendiherrann, Dag Wernø Holter, hélt tölu og Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar, var með hugvekju. Síðan sungum við saman lagið Umkringd af óvinum, sem er íslensk þýðing Heimis Pálssonar á laginu Til Ungdommen eftir Nordahl Grieg. Lagið hefur verið víða sungið í Noregi í tengslum við ódæðisverkin. Þetta var mjög falleg athöfn,“ segir Stefán Rafn Sigurbjörnsson, formaður Ungra jafnaðarmanna.

Hann segir töluverðan fjölda hafa komið saman við Norræna húsið í kvöld. „Það var mikill samhugur á milli Íslands og Noregs í kjölfar árásanna og þetta lifir enn í fólki. Svo er þessi gegnumgangandi orðræða tengd atburðinum um hatrið og hvernig við bregðumst við þeirri orðræðu. Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, sagði að við þyrftum að bregðast við slíkri hatursorðræðu með meira lýðræði og meiri víðsýni. Það er meginboðskapurinn í þessu öllu saman,“ segir Stefán.

Hann segir að ungliðahreyfingar víða á Norðurlöndum hafi staðið fyrir minningarathöfnum í dag og í kvöld, en formenn ungliðahreyfingar sænska Jafnaðarmannaflokksins og norska Verkamannaflokksins stóðu fyrir minningarathöfn í Útey fyrr í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert