Sólskin ekki verið minna í 25 ár

Regnhlífar hafa verið áberandi í Reykjavík það sem af er …
Regnhlífar hafa verið áberandi í Reykjavík það sem af er sumri, enda rigningarmet slegið í júní og ekki verið færri sólarstundir í júlí í 25 ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það bar til tíðinda í Reykjavík á sunnudaginn að það sást til sólar. Sólskinsstundirnar mældust 3,9 sem er það mesta frá 8. júlí en þá mældust stundirnar 7,9, samkvæmt upplýsingum Trausta Jónssonar veðurfræðings.

Reyndar hafa einungis þrír dagar í júlí verið alveg sólarlausir í höfuðborginni (1., 10. og 18.).

Alls hafa nú mælst 50,6 sólskinsstundir í mánuðinum í Reykjavík. Það er 58,5 stundum færri en að meðaltali árin 1961 til 1990, en 85,3 stundum færri en að meðaltali síðustu tíu árin.

Það þarf að fara 25 ár aftur í tímann eða til júlí 1989 til að finna jafnsólarlitla fyrstu 20 daga júlímánaðar. Þá höfðu sólskinsstundirnar mælst 32,1. Fæstar sólskinsstundir fyrstu 20 dagana í júlí mældust í júlí 1926, eða 28,7.

Vesturland hefur verið ansi blautt það sem af er júlí, og það á við um norðurhluta þess ekki síður en suðurhlutann.

Því má bæta við að von er um að sólin láti sjá sig á höfuðborgarsvæðinu um hádegisbil í dag, en á morgun tekur að rigna á nýjan leik ef marka má Veðurstofu Íslands. Um helgina gæti þó tekið að birta aftur fyrir sunnan en í millitíðinni verður, eins og lengst af í sumar, hlýjast og þurrast á austurlandi.

Sjá einnig veðurvef mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert