Útsending RÚV á Kópaskeri „handónýt“

Útvarpshúsið í Efstaleiti.
Útvarpshúsið í Efstaleiti. mbl.is/Ómar Óskarsson
Pétur Þorsteinsson, fyrrverandi skólastjóri, hefur sent stjórn Ríkisútvarpsins bréf til að vekja athygli á því sem hann segir vera óviðunandi og handónýta þjónustu Vodafone á Kópaskeri. Pétur segir að FM-útsending Rásar I og Rásar II á svæðinu hafi verið „gjörsamlega handónýt“ í næstum tvær vikur.
Á samfélagsvefnum Facebook birtir Pétur einnig bréf sitt til stjórnar Ríkisútvarpsins. Segir hann ekkert bóla á úrbótum og að hann krefjist þess að stjórn RÚV sjái til þess að Vodafone gegni skyldum sínum við landsmenn, geri þegar í stað við bilanir og biðji hlustendur á Kópaskeri og nágrenni afsökunar á óviðunandi þjónustu.

„Ég hef slökkt á útvarpsviðtækjum mínum og mun ekki kveikja á þeim aftur fyrr en RÚV ehf og Vodafone tilkynna með opinberum hætti að útsendingarkerfi RÚV á Kópaskeri sé komið í lag. Ég verð einnig fremur ófús til að greiða fyrir þjónustu sem ég hef í engu notið síðustu vikur,“ segir Pétur.

Á facebooksíðu sinni segist Pétur hafa tilkynnt Ríkisútvarpinu um hverja einustu bilun í útsendingarkerfi þess – fyrst látlausar bilanir á Hjarðarbóli í Fljótsdal í fjögur ár og síðan önnur fjögur ár á Kópaskeri. „Ég nenni þessu ekki lengur. Ríkisútvarpið ber ábyrgð á því að útsendingar þess náist óbrjálaðar og þau fyrirtæki sem fá greitt fyrir að reka dreifikerfið geta ekki stólað á að kauplausir áhugamenn sinni verkum þeirra.“
Kópasker.
Kópasker. www.mats.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Birgir Karl Ragnarsson: Ruv
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert