Árásin náðist á upptöku

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur sem réðust …
Hæstiréttur Íslands hefur staðfest gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur sem réðust að þeim þriðja í Grundarfirði þann 17. júlí. Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir tveimur mönnum sem veittust að þeim þriðja í Grundarfirði aðfaranótt fimmtudags 17. júlí. Fram kemur í dómi Hæstaréttar að myndband hafi náðst af árásinni en að frásögn árásarmannanna hafi ekki verið í samræmi við upptökuna. 

Þar sem ekki er samræmi milli þess sem ráðið verður af upptökunni og framburðar varnaraðila og Y hjá lögreglu er fallist á með sóknaraðila að varnaraðili kunni að torvelda rannsókn málsins, verði hann látinn laus úr einangrun meðan rannsóknin er á frumstigi.“ Þetta kemur meðal annars fram í úrskurði Hæstaréttar.

Sú krafa var gerð fyrir héraðsdómi að mönnunum verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Hún hefur því verið staðfest.

Maður sem telur sig hafa orðið vitni að atburðinum segir að árásarmennirnir hafi slegið til hins slasaða með þeim afleiðingum að hann féll í jörðina. Þá hafi annar árásarmannanna sest klofvega yfir þann slasaða og kýlt hann einu sinni eða tvisvar í höfuðið með krepptum hnefa. Vitnið segist hafa komið að árásinni en fljótlega kom bátur að höfninni sem árásarmennirnir fóru um borð í. 

Í dóminum kemur einnig fram að annar árásarmannanna hafi haldið því fram í skýrslutöku sem framkvæmd var eftir árásina að lyftari hefði ekið í höfuð hins slasaða. Manninum hafði verið sýnd upptaka af árásinni sem hann sagði staðfesta frásögn sína.

Fórnarlambið slasaðist alvarlega og er samkvæmt upplýsingum mbl.is enn haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæslu Landspítala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert