Fimm bækur tilnefndar til Ísnálarinnar

Jo Nesbø er margverðlaunaður glæpasagnahöfundur sem hvarf frá hefðbundum starfsferli …
Jo Nesbø er margverðlaunaður glæpasagnahöfundur sem hvarf frá hefðbundum starfsferli í banka til að skrifa um sérvitra andhetju í baráttu við undirheimana. mbl.is/(Kristinn Ingvarsson

Höfundar og þýðendur fimm bóka hafa hlotið tilnefningu til Ísnálarinnar – Iceland Noir-verðlaunanna 2014, fyrir bestu þýddu glæpasöguna. Verðlaunin verða veitt í fyrsta sinn á Iceland Noir-glæpasagnahátíðinni í Norræna húsinu, þann 22. nóvember næstkomandi.

Þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin og tekur á þriðja tug innlendra sem erlendra rithöfunda þátt, en hátíðin er opin öllum áhugamönnum um glæpasögur. Skráning fer fram á vefnum icelandnoir.com.

Að þeim standa Bandalag þýðenda og túlka og Hið íslenska glæpafélag, auk Alþjóðlegu glæpasagnahátíðarinnar Iceland Noir.

Tilnefndu bækurnar eru:

  • Að gæta bróður míns (Veljeni vartija) eftir Antti Tuomainen. Sigurður Karlsson þýddi
  • Brynhjarta (Panserhjerte) eftir Jo Nesbø. Bjarni Gunnarsson þýddi
  • Hún er horfin (Gone Girl) eftir Gillian Flynn. Bjarni Jónsson þýddi
  • Manneskja án hunds (Människa utan hund) eftir Håkan Nesser. Ævar Örn Jósepsson þýddi
  • Sannleikurinn um mál Harrys Quebert (La Vérité sur l'affaire Harry Quebert) eftir Joël Dicker. Friðrik Rafnsson þýddi 

Í dómnefnd sitja Katrín Jakobsdóttir, alþingismaður og fyrrverandi menntamálaráðherra, Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður og bókmenntagagnrýnandi, Magnea J. Matthíasdóttir, formaður Bandalags þýðenda og túlka, Quentin Bates, rithöfundur og þýðandi, og Ragnar Jónasson rithöfundur. 

Tilnefningar til Ísnálarinnar eru tilkynntar á fæðingardegi glæpasagnahöfundarins 
Raymonds Chandlers (f. 23. júlí 1888), en hann nýtti sér ísnál sem morðvopn í bók sinni The Little Sister (1949). Bókin kom út á íslensku árið 1990, í þýðingu Þorbergs Þórssonar, og hét þá Litla systir.

Arnaldur Indriðason, Anna Yates, Árni Þórarinsson, Tina Flecken og Óttar …
Arnaldur Indriðason, Anna Yates, Árni Þórarinsson, Tina Flecken og Óttar Norðfjörð í pallborðsumræðum á Iceland Noir í fyrra. mbl.is/GSH
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert