Hvetja alla þingmenn til aðgerða

Druslugangan 2013. Á myndinni eru þær Brynja Vigfúsdóttir og Ester …
Druslugangan 2013. Á myndinni eru þær Brynja Vigfúsdóttir og Ester Vigfúsdóttir. Árni Sæberg

„Það er nokkuð ljóst að það eru gallar í kerfinu hjá okkur,“ segir Eva Brá Önnudóttir, einn skipuleggjenda Druslugöngunnar, sem í gær sendu bréf á alla þingmenn og biðluðu til þeirra að finna kynferðisafbrotamálum farveg innan Alþingis og sjá til þess að raunverulegar úrbætur eigi sér stað í málaflokknum.

„Við sendum þetta bréf til að kalla eftir aðgerðum og úrbótum varðandi kynferðisafbrotamál innan réttarkerfisins og hjá lögreglunni. Þolendur nefna margir hverjir að það sé ekki til neins að kæra og það eitt og sér segir okkur að kerfið þjónar ekki þeim sem það er byggt upp fyrir,“ segir hún.

Druslugangan er vettvangur fólks til að standa saman og taka afstöðu með þolendum kynferðisofbeldis, gegn gerendum, og verður hún farin í fjórða sinn 26. júlí næstkomandi.

Skýrsla um kynferðisbrot

Forsætisráðuneytið undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur skilaði af sér skýrslu 5. apríl 2013 sem unnin var af samráðshópi forsætisráðherra um samhæfða framkvæmd stjórnvalda við að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum barna. Hópurinn tók saman 27 tillögur til breytinga og bóta á kerfinu. Eva segir skipuleggjendur göngunnar vilja sjá þessar tillögur framkvæmdar, en þeir hafa fram að þessu ekki fengið að vita hvort tillögunum hefur verið fundinn farvegur. „Einnig viljum við að almenningur átti sig á því að frávísun kæru sanni ekki endilega sakleysi þar sem svo stórum hluta mála er vísað frá. Það er eitthvað sem þarf alvarlega að skoða,“ segir Eva. „Okkar draumaniðurstaða er sú að enginn þolandi kynferðisofbeldis líti svo á að það sé ekki til neins að leita réttar síns heldur að við búum við kerfi sem fólk vill leita til og treystir á.“

Fram kemur í bréfinu að Sameinuðu þjóðirnar hafi gagnrýnt og bent á það hversu fáar ákærur í kynferðisafbrotamálum séu hér á landi. Einnig hefur Guðrún Jónsdóttir, framkvæmdastýra Stígamóta, opinberlega bent á að þolendur kynferðisofbeldis telji margir gagnslaust að leita réttar síns. Einungis 10% þolenda kæra og af þeim er 70% mála vísað frá.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert