Lærði að graffa á ferðalagi um Amazon

Kristín Þorláksdóttir
Kristín Þorláksdóttir

Myndlistarkonan Kristín Þorláksdóttir hefur ferðast víða þrátt fyrir ungan aldur. Þegar hún var tvítug á ferðalagi um Brasilíu byrjaði hún að mála á veggi og lærði að meta og skilja götulist í sínu tærasta formi. Hún öðlaðist innsýn í dulda menningarkima fjarri heimaslóðunum og kynntist einstökum götulistamönnum. Í dag verður opnuð sýning á verkum hennar á Café Kró í Vestmannaeyjum.

Hún er aðeins tuttugu og tveggja ára gömul en býr að einstakri reynslu. Sú reynsla endurspeglast oft í verkum hennar en jafnframt felst gjarnan í þeim áminning um að fólk eigi að leika sér, þótt það verði fullorðið.

Kristín hefur á síðastliðnu ári lagt mikla áherslu á götulist. „Götulist er meðal annars list sem er sett á veggi og getur verið allt frá límmiðum upp í stensla eða bara málverk á veggi. Götulist er í náinni tengingu við umhverfið og því oft unnin með það í huga. Þetta er í raun jaðarlist,“ útskýrir Kristín.

Í dag verður opnuð sýning á málverkum hennar á Café Kró í Vestmannaeyjum og stendur sú sýning í tvær vikur. Kristín býr sjálf í Reykjavík en var stödd í Eyjum í sumar. Þar vann hún meðal annars flennistórt vegglistaverk við höfnina, ásamt Ými Grönvold.

Í næsta mánuði heldur hún til Toronto í Kanada þar sem hún mun nema myndlist við OCAD University. Hún er spennt að fara utan og það má með sanni segja að ferðalög hvers konar heilli hana.

„Ég ferðaðist mikið með fjölskyldunni þegar ég var yngri og bjó í Kenýa um tíma með mömmu minni, stjúpföður og systur þegar ég var fjórtán ára. Við ferðuðumst um Austur-Afríku og síðan hef ég sjálf ferðast víða, bæði meðan ég var í menntaskóla og eftir menntaskólann,“ segir Kristín.

Graffarinn í Amazon

Að menntaskóla loknum, árið 2012, fór hún ásamt vinkonu sinni í langt ferðalag til Suður-Ameríku. Það ferðalag hafði mikil áhrif á hana því þar kynntist hún mögnuðum listamönnum og lærði af þeim. „Við vorum mest í Brasilíu og þar fékk ég svona mikinn áhuga á götulist og byrjaði eiginlega að mála þar fyrir alvöru,“ segir Kristín. Í menntaskóla var hún þó byrjuð að mála á veggi með hópi af gröffurum. Hún málaði með þeim í um hálft ár en málaði svo ekkert í tvö ár eða þar til hún fór til Brasilíu.

„Í Amazon rakst ég á graffara sem bauð mér að mála með sér, sem ég gerði. Við vinkonurnar höfðum í upphafi ætlað að fara í bakpokaferðalag en svo breyttist ferðin mjög mikið eftir að ég rakst á graffarann í Amazon því þá breyttist þetta úr bakpokaferð yfir í graffítíferð,“ segir ævintýrakonan unga.

Þær vinkonur lentu í dálitlum vandræðum með gistingu þannig að Kristín leitaði ráða hjá graffaranum sem sagði það nú vera lítið mál að bjarga því. Hann fékk ferðaáætlun vinkvennanna og þar með voru örlögin ráðin. „Hann sagðist ætla að kynna okkur fyrir fólki í hverri borg og úr varð tæplega hálfs árs ferð meðfram allri Brasilíu þar sem við máluðum og vörðum tíma með götulistamönnum í hverri borg. Við héldum tvær sýningar og vorum í einhverjum heimildarmyndum,“ segir Kristín um þessa ævintýralegu ferð.

Undir vernd í „favelu“

Brasilíuferðin reyndist býsna góður skóli og öðluðust þær vinkonur reynslu sem ekki er á hverju strái. „Þegar maður málar á veggi er maður svo mikill hluti af almenningi. Að vera hvít millistéttarstelpa frá Íslandi í löndum þar sem er hörð fátækt, gerir það að verkum að einstaklingurinn er settur í fyrirframgefinn ramma út frá uppruna sínum. En þegar maður er allt í einu allur úti í málningu og allir drekka sama vatnið þá flokkar fólk mann öðruvísi. Það er aðallega virðingin sem verður öðruvísi,“ segir Kristín sem upplifði bæði þakklæti og vinsemd í sinn garð.

Í Rio de Janeiro máluðu vinkonurnar í „favelum“ sem eru hættuleg fátækrahverfi sem lögreglan vogar sér ekki einu sinni inn í. „Það gengur enginn inn í þessi hverfi sem er ekki þaðan, því þeim er stjórnað af eins konar mafíósum. Þar er ekkert borgarskipulag en íbúarnir greiða mafíósunum eins konar skatt og í staðinn veita þeir þeim vernd gegn lögreglunni og öðrum klíkum. Þegar til stóð að gera eitthvað fyrir hverfið í þessari favelu fórum við þangað með öðrum götulistamönnum, undir vernd „stjórans“, bara af því að við vorum að mála og vinir okkar voru í þessu verkefni,“ segir Kristín og hlær að minningunni um þessar sérstöku aðstæður. Reynslan sem hún öðlaðist í staðinn hefur komist til skila í verkum hennar sem má meðal annars skoða á vefsíðunni www.algerastudio.com og á sýningunni á Café Kró.

Vegglistaverkið í höfninni í Vestmannaeyjum vekur mikla athygli.
Vegglistaverkið í höfninni í Vestmannaeyjum vekur mikla athygli. Ljósmynd/Laufey Konný Guðjónsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert