Leita vísbendinga um íslensk miðaldarklaustur

Leitað að klaustrum - Vettvangsferð í Hítardal í Mýrum. Hrafnhildur …
Leitað að klaustrum - Vettvangsferð í Hítardal í Mýrum. Hrafnhildur Helga Halldórsdóttir og Hermann Jakob Hjartarson Helga Jónsdóttir

Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands, stendur um þessar mundir fyrir viðamikilli leit að íslenskum miðaldarklaustrum ásamt sex manna rannsóknarhóp.

„Vitað er að klaustur voru rekin á fjórtán stöðum á miðöldum. Markmiðið með þessu verkefni er að skrá allar minjar og örnefni sem eru til um klaustrin, gripi sem eru úr þeim og þessháttar,“ segir Steinunn í samtali við mbl.is í dag.

Verkefnið á að standa í þrjú ár. Stærsti styrktaraðili þess er Rannís, en einnig styrkja rannsóknasjóður Háskólans og nýsköpunarsjóður námsmanna verkefnið. Téður rannsóknarhópur er sex manna teymi og samanstendur af fornleifafræðingum, sagnfræðingi og safnafræðingi.

Leitin að gleymdu klaustrunum

„Þetta hefur ekki verið gert áður. Það er merkilegt hve lítill áhugi hefur verið á því að skoða klaustrin og umsvif þerra. Kannski er það vegna þess að þau gleymdust. Svo er mikil áhersla lögð á víkingaöld og að skoða höfðingjavaldið í sögunni, frekar en hlutverk klaustranna,“ segir Steinunn.

Einsog margir vita var klaustrunum öllum lokað árið 1550, við siðaskiptin. Síðan var kaþólsk trú bönnuð þar til trúfrelsi var leyft á ný 1874 með stjórnarskránni. 

„Klaustrin hafa svolítið fallið í gleymsku. Ekki er til dæmis vitað hvar klaustrin stóðu, en skjöl benda til þess að þau hafi verið mjög umsvifamikil og átt miklar eignir, jarðeignir og lausafé jafnt sem búpening. Þess vegna skiptir miklu máli að þau hafi týnst. Heimildir eru um að byggingar hafi verið rifnar af mönnum konungs og gripir eyðilagðir. Við erum að gramsa og leita einsog við getum að öllum vísbendingum um hvar klaustrin stóðu.“

Notast er við örnefni, innrauðar myndir, loftmyndir af klausturjörðum, könnunarskurði og þrjár gerðir af jarðsjámælum við þessa leit svo eitthvað sé nefnt.

Íslensk saga hluti af stærri heild

„Við erum að skoða klausturlifnað sem hreyfingu frá Evrópu. Það mætti segja að eitt það nýjasta sem er að gerast í fræðunum er að minna sé einblínt á Ísland sem einangraða einingu og meira litið á okkur sem hluta af stærri heild. Biskupsstólar Íslands tilheyrðu til dæmis erkibiskupsstólnum á Niðarósi ásamt fleiri stólum og þar virðist hafa verið mikil samvinna.“

Fyrsta tilraun til klausturstofnunnar hérlendis var 1030, þrjátíu árum eftir kristnitöku, á Bæ í Borgarfirði.

„Klausturlifnaður berst hingað með kristninni rétt einsog í nágrannalöndunum. Hinsvegar er einsog ekki hafi verið rekstrargrundvöllur fyrir klaustrið svona snemma því það lognast útaf eftir tuttugu ár. Fyrsta stóra klaustrið, sem er svo rekið í 400 ár, er svo stofnað á Þingeyrum. Þá er klausturformið farið að dreifast um Norður-Evrópu. Allstaðar sem þau voru voru þau miðstöð kaþólsku kirkjunnar í Róm,“ segir Steinunn.

Leita að klaustrum - Margrét Valmundsdóttir og Hrafnhildur Helga Halldórsdóttir …
Leita að klaustrum - Margrét Valmundsdóttir og Hrafnhildur Helga Halldórsdóttir framkvæma jarðsjámælingar við Helgafell á Snæfellsnesi Helga Jónsdóttir
Könnunarskurður tekinn við Helgafell á Snæfellsnesi. Hermann Jakob Hjartarson, Helga …
Könnunarskurður tekinn við Helgafell á Snæfellsnesi. Hermann Jakob Hjartarson, Helga Halldórsdóttir og Helga Jónsdóttir. Steinunn Kristjánsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert