Afhentu borða með nöfnum 648 fórnarlamba

Á borðanum voru nöfn þeirra 648 Palestínumanna sem látist hafa …
Á borðanum voru nöfn þeirra 648 Palestínumanna sem látist hafa í átökum á Gaza-svæðinu. Árni Sæberg

Að loknum útifundinum á Ingólfstorgi í kvöld afhentu félagsmenn Íslands-Palestínu Jóhannesi Skúlasyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra, minningarkrans og borða með nöfnum þeirra 648 manns sem látist hafa í hernaðaraðgerðum Ísraelsmanna. Jóhannes veitti þessu viðtöku í fjarveru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.

Eftir fundinn sendi félagið frá sér ályktun þar sem krafist er þess að blóðbaðið á Gaza verði stöðvað tafarlaust, umsátrinu um Gaza verði aflétt og að alþjóðleg vernd hljótist fyrir Palestínumenn.

Að útifundinum á Ingólfstorgi stóðu, ásamt félaginu Ísland-Palestína, Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, Öryrkjabandalag Íslands, Kennarasamband Íslands, SFR, Verkalýðsfélag Akranes, Efling, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Dögun, Píratar, VG, Björt framtíð, Alþýðufylkingin, Samtök hernaðarandstæðinga og Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna.

Að neðanverðu má sjá ályktun félagsins í heild sinni:

„Útifundur Félagsins Ísland-Palestína, haldinn á Ingólfstorgi í Reykjavík 23. júlí 2014, með stuðningi fjölmennustu hagsmunasamtaka landsins, stjórnmálaflokka og friðarhreyfinga,
fordæmir fjöldamorð Ísraelsstjórnar á íbúum Gaza og hvetur íslensk stjórnvöld til að beita öllum tiltækum ráðum til að endir verði bundinn á blóðbaðið tafarlaust og umsátrinu um Gaza aflétt.

Fundarmenn heita því að gera allt sem í þeirra valdi stendur, allir sem einn, að fylgja eftir kjörorðum fundarins: Stöðvum blóðbaðið á Gaza tafarlaust, alþjóðlega vernd fyrir Palestínumenn, umsátrinu um Gaza verði aflétt, niður með hernámið, frjáls Palestína.“

Jóhannes Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, tekur við minningarkransi og borðanum.
Jóhannes Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, tekur við minningarkransi og borðanum. Árni Sæberg
Fjölmenni var við Stjórnarráðið.
Fjölmenni var við Stjórnarráðið. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert