Vísitalan lækkar á milli mánaða

Sumarútsölur hafa áhrif á vísitölu neysluverðs.
Sumarútsölur hafa áhrif á vísitölu neysluverðs. Styrmir Kári

Vísitala neysluverðs lækkar um 0,17% milli mánaða. Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í júlí 2014 er 422,1 stig (maí 1988=100) og lækkaði um 0,17% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 396,7 stig og lækkaði um 0,23% frá júní. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar.

Sumarútsölur eru víða í gangi og lækkaði verð á fötum og skóm um 11,6% (áhrif á vísitöluna -0,55%). Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 17% (0,29%). 

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,4% og vísitalan án húsnæðis hefur hækkað um 1,4%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,3% sem jafngildir 1,0% verðbólgu á ári (0,7% verðbólgu fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í júlí 2014, sem er 422,1 stig, gildir til verðtryggingar í september 2014. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 8.334 stig fyrir september 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert