„Alltaf hægt að gera betur“

Haraldur Líndal Haraldsson.
Haraldur Líndal Haraldsson.

Nýr bæjarstjóri Hafnarfjarðar hlakkar til að takast á við starfið, en segist þurfa að ljúka fjölda verkefna á næstu dögum svo hann geti byrjað með hreint borð.

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í morgun að ráða Harald Líndal Haraldsson hagfræðing í stöðu bæjarstjóra, en 30 sóttu um þegar staðan var auglýst fyrr í sumar. 

Haraldur hefur um 15 ára reynslu sem bæjar- og sveitarstjóri, bæði á Ísafirði í 10 ár og í Dalabyggð í 5 ár. Hann er fæddur og uppalinn í Keflavík en býr nú í Garðabæ og segir aðspurður um hugsanlega flutninga til Hafnarfjarðar að það sé næsta mál sem þurfi að skoða.

Alltaf hægt að gera betur í rekstri

Aðspurður segir Haraldur það ekki hafa verið neina skyndiákvörðun að sækja um, en hann hafi þó ekki gengið með það í maganum lengi.

„Ég bý yfir mikilli reynslu bæði í rekstri fyrirtækja og sveitarfélaga þannig að þetta er ekkert nýtt fyrir mér. Ég hef unað mínum hag vel og hef nóg að gera, en mér fannst að miðað við þá reynslu og þann grunn sem ég hef þá væri ástæða til að gefa þeim í Hafnarfirði kost á að geta valið mig úr hópi fleiri umsækjenda. Þess vegna sótti ég um,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is

Á undanförnum árum hefur Haraldur starfað sjálfstætt sem ráðgjafi og sérhæft sig í endurskipulagningu í rekstri og fjármálum sveitarfélaga. Telur hann mikið verk fyrir höndum í fjármálum Hafnarfjarðar?

„Ég er nú almennt þeirra skoðunar, sérstaklega núna eftir að hafa tekið út um 18% af sveitarfélögum á Íslandi, að eins og í öllum rekstri sé alltaf hægt að gera betur. Ég geri ráð fyrir að Hafnarfjörður sé ekki nein undantekning á því, en auðvitað eru þetta hlutir sem ég á eftir að fara í gegnum og skoða með fólki, bæði bæjarfulltrúum og starfsmönnum.“

Meðal þeirra verkefna sem Haraldur vinnur að í augnablikinu er úttekt á rekstri Reykjanesbæjar. Hann segist ætla að nýta vel tímann sem er framundan til að skila því og fleiri verkefnum af sér svo hann geti hafist handa sem bæjarstjóri af fullum styrk.

„Þegar maður er í svona starfi þá getur maður ekki verið að vinna í einhverju öðru með því,“ segir Haraldur sem er spenntur fyrir tímamótunum framundan. „Að sjálfsögðu er mikil tilhlökkun að fara að byrja þessa vinnu með góðu fólki og íbúum Hafnarfjarðar.“

Sjá fyrri fréttir mbl.is:

Haraldur ráðinn bæjarstjóri

30 sóttu um stöðu bæjarstjóra í Hafnarfirði

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert