Hver er Chung Tung Augustine Kong?

Íslensk erfðagreining
Íslensk erfðagreining mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Á lista ríkisskattstjóra yfir þrjátíu hæstu gjaldendur ársins 2014 er að finna nafnið Chung Tung Augustine Kong, sem er vafalaust mörgum framandi. Kong kemur úr metorðastiga Íslenskrar erfðagreiningar sem seld var bandaríska fyrirtækinu Amgen.

Í desember 2012 fjallaði mbl.is um söluna á Íslenskri erfðagreiningu og kom þá fram að söluverðið til Amgen væri 52 milljarðar íslenskra króna. Ljóst er að helstu stjórnendur deCODE áttu hluti í félaginu sem farið hafa með til Amgen.

Þannig er Kári Stefánsson, forstjóri deCODE, í 13. sæti á lista yfir hæstu gjaldendur fyrir árið 2014. Chung Tung Augustine Kong, sem verið hefur hjá deCODE frá árinu 1996 og er í stjórnendastöðu, er í 15. sæti. Þá eru einnig á listanum Unnur Þorsteinsdóttir og Hákon Guðbjartsson. Þessi fjögur tilheyra framkvæmdastjórn deCODE.

Auk þeirra er á lista hæstu gjaldenda ársins 2014 skákmaðurinn Jóhann Hjartarson, yfirmaður lögfræðideildar deCODE, og þeir Gísli Másson og Daníel Fannar Guðbjartsson sem báðir tengjast fyrirtækinu.

Samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með áorðnum breytingum, skal ríkisskattstjóri leggja fram og hafa til sýnis álagningarskrár. Liggja þær frammi á starfsstöðvum embættisins um allt land næstu tvær vikur eða til 8. ágúst n.k. Kærufrestur rennur út 25. ágúst n.k.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert