Keppir í hættulegustu kappreið í heimi

Aníta Margrét Aradóttir æfir af kappi fyrir kappreiðina í Mongólíu.
Aníta Margrét Aradóttir æfir af kappi fyrir kappreiðina í Mongólíu.

Aníta Margrét Aradóttir mun taka þátt í lengstu og erfiðustu kappreið í heimi í Mongólíu í ágúst. 45 reiðmenn alls staðar að úr heiminum taka þátt í Mongol Derby-kappreiðinni sem er 1.000 km löng og jafnframt talin sú hættulegasta sem til er.

Líkt og fram kom í viðtali mbl.is við Anítu fyrir nokkru ríða keppendur mongólskum villihestum sem eru lítið sem ekkert tamdir. Skipt verður um hest á 40 km fresti svo að hest­arn­ir þreyt­ist ekki. Aníta er fyrsti Íslendingurinn sem tekur þátt í Mongol Derby-reiðinni en hún mun styrkja barna­spítala Hrings­ins í reiðinni í Mongólíu.

 „Þetta er mjög krefjandi kappreið og ég er orðin mjög spennt,“ er haft eftir Anítu í fréttatilkynningu en hún ætlar með þátttöku sinni að safna peningum fyrir Barnaspítala Hringsins. „Ég sótti upp­haf­lega um að taka þátt í keppn­inni á næsta ári en það losnuðu skyndi­lega pláss í keppn­ina núna í ár þannig að ég sló til. Ég fæ mun styttri und­ir­bún­ings­tíma en hinir knap­arn­ir en þeir voru vald­ir í októ­ber á síðasta ári. Ég ætla að gera mitt allra besta og stefnan er auðvitað að klára kappreiðina og komast alla þessa 1.000 km á sem bestum tíma.“  Hún er lærður tamn­ingamaður frá Há­skól­an­um á Hól­um og hef­ur starfað sem tamn­ingamaður í 16 ár. Auk þess er hún reiðkenn­ari að mennt. Aníta hef­ur starfað mikið er­lend­is, í Evr­ópu og Banda­ríkj­un­um, bæði við að þjálfa ís­lenska hesta og sýna þá á hesta­sýn­ing­um.

Hefur reynst mörgum knöpum ofviða

Mon­g­ol Der­by-reiðin hefur verið hald­in undanfarin sex ár og hefur reynst mörgum knöpum ofviða vegna hinnar erfiðu og löngu reiðar. „Ég er ekkert smeyk þrátt fyrir að þetta sé löng, erfið og hættuleg leið. Ég er full af baráttuanda og bjartsýni. Ég lít á þetta sem mikið ævintýri,“ segir hún í tilkynningunni. Mjög mikill kostnaður fylgir því að taka þátt í Mongol Derby-reiðinni. Bæði þarf Aníta að greiða keppn­is­gjald og ferðagjöld en hún segir að vel gangi að fjár­magna ferðina.

Keppendum í Mon­g­ol Der­by ber skylda til að safna hvatn­ing­ar­styrk­um og mun Aníta safna fyr­ir Barna­spítala­ Hrings­ins. Einnig mun hún safna pen­ingum til styrkt­ar góðgerðarfé­laginu Cool Earth sem vinn­ur að vernd­un regn­skóga Amazon.

„All­ir sem taka þátt í kappreiðinni þurfa að safna fyr­ir Cool Earth en svo mátti ég velja annað góðgerðarfé­lag sjálf. Ég vildi velja góðgerðar­mál sem hvet­ur mig áfram og ég veit að Barna­spítali Hrings­ins mun gera það,“ seg­ir Aníta en hún verður að ná ákveðnu lág­marki í söfn­un­inni og verður hún að hafa náð því mánuði eft­ir að keppn­inni lýk­ur. 

Hægt er að heita á Anítu með fjárframlögum með því að leggja inn á reikning  515 - 04 - 253774 til að styrkja Barnaspítala Hringsins og 515 - 04 - 253778 til að styrkja Cool Earth. Sama kennitala er á báðum reikningunum en hún er : 200282-3619

Aníta Margrét Aradóttir.
Aníta Margrét Aradóttir.
Aníta Margrét.
Aníta Margrét.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert