Jón greiðir hæstu skattana

mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Jón A. Ágústsson framkvæmdastjóri greiðir mestan skatt Íslendinga sam­kvæmt yf­ir­liti frá rík­is­skatt­stjóra um álagn­ingu ein­stak­linga 2014. Jón greiðir tæp­lega 412 millj­ón­ir króna í skatta. Jón var einn af eigendum samheitalyfjafyrirtækisins Invent Farma, sem Framtakssjóðurinn keypti 60% hlut í á síðasta ári. Jón átti 13,3% hlut í fyrirtækinu.

Næsthæstu gjöldin greiðir Guðbjörg M. Matthíasdóttir, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, tæplega 390 milljónir króna.

Þriðji hæsti greiðandinn er Ingibjörg Björnsdóttir framkvæmdastjóri, en hún greiðir tæplega 239 milljónir króna í skatta. Kristín Vilhjálmsdóttir greiðir tæpar 238 milljónir í skatta og Þorsteinn Már Baldvinsson, útgerðarmaður á Akureyri, greiðir rúmlega 211 milljónir. Kristján V. Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja, greiðir tæpar 190 milljónir króna í skatta og Helga S. Guðmundsdóttir tæplega 186 milljónir króna. 

Fjórar konur eru í efstu tíu sætum lista ríkisskattstjóra yfir hæstu gjaldendur, þrjár þeirra eru meðal fjögurra hæstu gjaldenda landsins. Tíu konur eru á lista yfir þrjátíu helstu gjaldendur.

Magnús Kristinsson, skattakóngur síðasta árs, er ekki á lista yfir 30 hæstu gjaldendur ársins 2014. Magnús greiddi um 190 milljónir króna í skatta í fyrra. Skattakóngur ársins í ár greiðir hins vegar tæplega 412 milljónir.

Álagningu lokið

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2014. Álagning 2014 fer fram á tekjur ársins 2013 og eignir pr. 31.12.2013. Stærsti hluti álagðra gjalda hefur þegar verið innheimtur með staðgreiðslu opinberra gjalda. Nokkrir skattar og gjöld einstaklinga eru innheimtir eftir lok staðgreiðsluárs, svo sem útvarpsgjald, gjald í framkvæmdasjóð aldraðra, auðlegðarskattur og slysatryggingagjald. Álagning auðlegðarskatts er tvískipt; annars vegar er lagt á nafnverð eigna samkvæmt framtali einstaklinga pr. 31.12.2013 og hins vegar á eign í lögaðilum pr. 31.12. 2012, svokallaðan viðbótarauðlegðarskatt.

Við álagningu fer ennfremur fram uppgjör staðgreiðslu og ákvörðun á barnabótum og vaxtabótum. Inneignir framteljenda verða lagðar inn á bankareikninga 1. ágúst nk.

Fjöldi framteljenda og áætlaðir aðilar

Á skattgrunnskrá 2014 voru 268.452 framteljendur. Er það fjölgun um 4.260 frá fyrra ári. Framtalsskil gengu vel og staðfesting framtala fór yfirleitt tímanlega fram. Að þessu sinni voru það 12.478 einstaklingar sem ekki skiluðu framtali og sættu því áætlun opinberra gjalda eða 4,65% af heildarfjölda. Eru það nokkru færri aðilar en undanfarin ár.

Jón A. Ágústsson
Jón A. Ágústsson Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert