Skipstjóri úr „The Deadliest Catch“ á Íslandi

Ljósmynd/Sigurður Steinn Einarsson

Rick Fehst, skipstjórinn á skipinu Early Dawn er staddur hér á landi og heimsótti skipið Börk NK í gær. Skipið Earlu Dawn kemur fyrir í sjónvarpsþáttunum The Deadliest Catch sem sýndir eru á Discovery Channel. Í þáttunum reyna Fehst og félagar að veiða krabba í erfiðum skilyrðum fyrir utan strendur Alaska. 

Á vef Síldarvinnslunnar kemur fram að Fehst er staddur hér á landi til að undirbúa samstarf Háskólans í West-Kentucky og Háskólans á Akureyri á sviði hnattrænna hlýnunar.  

Starfar hann hjá „Semester at Sea“ sem er námslota fyrir háskólanema þar sem kennt er um borð í skipi og fer kennsla fram að jafnaði í 100 daga á hafi úti. Semester at Sea var stofnað árið 1963 og hafa 55.000 háskólanemar útskrifast úr lotunni. 

Fehst heimsótti fiskiðjuver Síldarvinnslunnar þegar stóð yfir frysting á síld og makríl úr Berki NK. Kom honum á óvart hversu hátt tæknistigið væri hér á landi og hafði hann oft velt því fyrir sér hvernig svo fámenn þjóð gæti framleitt svo mikið en eftir að hafa skoðað skipaflotann og fiskvinnslur landsins væri hann farinn að skilja málið betur. 

Sjá vef Síldarvinnslunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert