Sólarvon á sunnudaginn

Því miður er sólin feimin þessa dagana.
Því miður er sólin feimin þessa dagana. Ernir Eyjólfsson

Veðrið yfir helgina helst svipað og það hefur verið í dag og í gær með hægum vindi og skúrum af og til.

„Það er voða lítið að gerast. Það er afskaplega hægur vindur um allt land og einhver úrkoma verður á morgun. Hún mun líklega þorna seinnipartinn og á sunnudaginn mun haldast þokkalegt,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Aðspurð hvar verði hlýjast vísar Elín á Norðausturland. „Þetta er áfram suðlægt. En það verður meira og minna skýjað á morgun, hlýjast verður á suðurströndinni og austfjörðunum. En það mun líklega hreinsast til norðan jökla seinnipartinn,“ segir Elín.

„Á meðan það hreyfir lítið vind og einhver raki er í loftinu þarf sólin bara svolítið að vinna fyrir því að skína í gegn. Þarf að bræða sig í gegnum allt saman,“ segir Elín um sólarglennur um helgina. „Annað kvöld ætti nú að róast svolítið. Það þornar líklega víðast hvar og þá á sólin auðveldara með að komast í gegn á sunnudaginn.“

Hún segir að sunnudagurinn verði betri en laugardagur. En gildir það sama um allt land? „Já þetta er rosalega mikið svipað. Það er helst Norðausturlandið og suðaustur- og austurströndin sem fær flennisól á morgun ef hún skín í gegn. Annars hugsa ég að allir staðir á landinu ættu að fá einhverja sól á sunnudaginn,“ segir Elín.

Á mánudaginn mun rigna þó að vikan fari skánandi eftir því sem líður á. Bjart verður suðvestantil á þriðjudag og miðvikudag en einhverjir síðdegisskúrir verða á Suðurlandinu á fimmtudag. „Þetta lítur alveg ljómandi vel út,“ segir Elín um næstu viku.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Hægviðri, skýjað með köflum og þurrt að kalla verður á sunnudag með vaxandi suðaustanátt með rigningu Suðvestanlands seint um kvöldið. Hiti verður 10-15 stig.

Á mánudag verður suðaustan- og síðan suðvestan 5-13 m/s og rigning sunnan- og vestanlands en skýjað með köflum norðaustantil. Hiti 10-21 stig, en hlýjast verður á Norðausturlandi.

Norðanátt 5-13 m/s með rigningu verður norðanlands á þriðjudag, en annars  bjart með köflum syðra. Hiti verður 7-16 stig, hlýjast sunnanlands.

Á miðvikudag er norðanátt 3-10 m/s, minnkandi súld norðaustantil en bjart með köflum syðra. Hiti 6-20 stig, hlýjast sunnanlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert