Dráttarvélafimi á Reykhólum

Um þúsund manns skemmta sér nú á Reykhólum, en að …
Um þúsund manns skemmta sér nú á Reykhólum, en að sögn Ingibjargar eru það bæði heimamenn og aðkomufólk. Mynd/Mats.is

Stemningin er góð á Reykhóladögum fyrir vestan þar sem veðrið leikur við hátíðargesti. Hátíðin fer stækkandi með hverju ári en um þúsund manns skemmta sér nú á Reykhólum. 

„Hápunktur hátíðarinnar er í dag og það er búið að vera alveg rosalega flott veður hérna hjá okkur miðað við að það hefur rignt hér í grenndinni. Hér er rosalega mikið af fólki og mikil fjölgun á milli ára,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri Reykhólahrepps.

Hátíðin hófst upphaflega sem uppskeruhátíð sveitarinnar en hefur nú undið upp á sig og orðið að bæjarhátíð þar sem margir koma að.

„Þetta er fjölskylduhátíð með mörgum föstum liðum. Þar ber helst að nefna dráttarvélarfimina sem er mjög vinsæl. Það eru tvær bæir hérna hjá okkur sem hafa verið duglegir í að gera upp gamlar dráttarvélar.

Á eftir koma um þrjátíu vélar og keyra hringinn í kringum Reykhóla. Það er mjög sérstakt að sjá, gamlar og uppgerðar vélar. Og svo er settur upp leikvöllur þar sem fólk tekur þátt í dráttarvélafimi. Þetta er svona þrautabraut, en það er líka gaman að prófa vélarnar sem maður keyrði í gamla daga,“ segir Ingibjörg.

Í morgun var þarabolti spilaður á Reykhólum, en það er nokkurs konar útgáfa af mýrarbolta nema að á Reykhólum er leikinn fótbolti á þaravelli. Í kvöld verða afhent verðlaun fyrir alla þá leiki og keppnir sem hafa verið háðar á hátíðinni, og í fyrramálið verður vatnabolti í sundlauginni fyrir krakkana.

„Svo er ball seinna í kvöld. Þegar eitthvað er haldið hér á Reykhólum þá mæta bara allir úr sveitinni,“ segir Ingibjörg.

Dagskrá Reykhóladaga má sjá hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert