Ekki sjálfsagt að káfa á fólki

Margrét Jóhönnudóttir, þátttakandi Druslugöngunnar, var kát að sjá.
Margrét Jóhönnudóttir, þátttakandi Druslugöngunnar, var kát að sjá. Ljósmynd/Árni Sæberg

Fjölmenni var í Druslugöngunni í dag eins og fjallað var um í frétt mbl.is. Blaðamaður mbl.is náði tali af nokkrum þátttakendum sem voru allir á sama máli um að gangan hafi verið frábær.

„Eitthvað sem allir þurfa að vita, við eigum okkur sjálf,“ sagði Margrét Jóhönnudóttir aðspurð hvers vegna hún tæki þátt í Druslugöngunni.

Hún taldi að gott væri að þyngja þá dóma sem falla í kynferðisafbrotamálum og sagði „það er fáránlegt að maður fái þyngri dóm fyrir skattsvik en kynferðisafbrot.“

Margrét talaði um að það væri ekki sjálfsagt mál að káfa á næsta manni á skemmtistöðum og hún taldi það eiga við um bæði kynin.

Aðspurð um hvað væri best að gera til þess að bæta framtíðarsamfélag Íslendinga sagði hún að nauðsynlegt væri að fræða börn um málefni sem þessi.

Feðgarnir Óli Atlason og Hlynur Ólason sögðust taka þátt fyrir allar druslur. Óli tók hinsvegar einnig þátt fyrir börnin sín. Þeir höfðu ekki tekið þátt áður í Druslugöngunni en voru sammála um það að þetta væri góð leið til að vekja athygli á málefninu.

Nína Dögg Filippusdóttir tók þátt í göngunni í sitt fyrsta sinn en hún sagðist gera það til að mótmæla ofbeldi. „Þetta er falleg ganga og það eru ótrúlega margir hér, það er gaman að því. Þetta er bara frábær ganga,“ sagði Nína.

 Sjá frétt mbl.is: Druslur fjölmenntu í bæinn

Feðgarnir Hlynur Ólason og Óli Atlason höfðu ekki tekið þátt …
Feðgarnir Hlynur Ólason og Óli Atlason höfðu ekki tekið þátt í Druslugöngunni áður. Ljósmynd/Árni Sæberg
Þórdís Árnadóttir og Nína Dögg Filippusdóttir voru hæstánægðar með gönguna.
Þórdís Árnadóttir og Nína Dögg Filippusdóttir voru hæstánægðar með gönguna. Ljósmynd/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert