Fjölskyldubragur yfir Mærudögum

Mikill fjölskyldubragur er yfir Mærudögum en veðrið leikur við gesti …
Mikill fjölskyldubragur er yfir Mærudögum en veðrið leikur við gesti hátíðarinnar. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Fjórir gistu fangageymslur lögreglunnar á Húsavík í nótt, en eins og kunnugt er stendur bæjarhátíðin Mærudagar yfir um helgina. Þeir sem gistu voru þó ekki inni fyrir stórar sakir, heldur var það ástand þeirra sem krafðist þess að lögreglan þurfti að hafa afskipti af þeim.

Að sögn lögreglunnar á Húsavík er mikið af ferðamönnum í bænum en hún telur að fjöldi gesta sé svipaður og verið hefur síðustu ár.

Veðrið hefur leikið við hátíðagesti sem nutu dagskrárliða um allan bæ.

Að sögn Einars Gíslasonar, verkefnastjóra Mærudaga, er mikill fjölskyldubragur yfir hátíðinni en hann telur að um fjögur til sex þúsund manns hafi verið viðstaddir er hátíðin var sett í gær.

Í dag heldur fjörið áfram en á höfninni verður settur upp markaður, tívolí verður í bænum auk þess sem Jón Arnór Pétursson, töframaður, mun galdra fram góða stemmingu.

Í kvöld verður síðan hápunktur hátíðarinnar en það er brennan að sögn Einars. Hann segir að fjöldi ferðamanna sé í bænum en einnig mikið af „rigningarbörðum Sunnlendingum“ sem komnir séu til Húsavíkur til þurrkunar.

Frétt mbl.is: Himnablíða á Mærudögum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert