Hleypur í þröngum bleikum búning ef nóg safnast

Kappsandi - Halldóra vill safna sem mestu fyrir gott málefni.
Kappsandi - Halldóra vill safna sem mestu fyrir gott málefni. Af síðu Halldóru á Hlaupastyrkur.is

„Það er mjög erfitt að velja málefni. Eiginlega bara lúxusvandamál. Mitt markmið er að hlaupa fyrir nýtt málefni á hverju einasta ári,“ segir Halldóra Gyða Matthíasdóttir, sem hleypur fyrir Einhverfusamtökin í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. „Ég vil að sem flestir njóti góðs af hlaupinu og vel frekar það sem færri styrkja en fleiri.“

Halldóra hefur margsinnis tekið þátt í maraþoninu og valdi Einhverfusamtökin í ár þar sem vinir hennar eiga einhverf börn. Í ár hefur hún hinsvegar þann háttinn á að ef nóg safnast hleypur hún í albleikum hlaupabúning.

„Ég er mikil keppnismanneskja og langar að safna almennilega. Þess vegna setti ég mynd af mér í þessum hræðilega bleika búning á netið.

Ef ég næ að safna 300 þúsund hleyp ég í bolnum, ef ég næ 400 þúsund bætast buxurnar við en ef ég næ 500 þúsund hleyp ég líka með húfuna.“

Halldóra segir að markmiðið sé að fá sem mestan pening í gott málefni. „Þetta er mjög þröngt og ógeðslega ljótt,“ segir hún og bætir við að það verði mikil áskorun að hlaupa í búningnum.

Tekur þríþraut helgina áður

Halldóra tekur þátt í Iron man þríþrautinni í Svíþjóð helgina fyrir Reykjavíkurmaraþon. Þrautin felst í að keppendur syndi 3,8 kílómetra, hjóli 180 kílómetra og hlaupi heilt maraþon á sem skemmstum tíma. „Það er virkilega skemmtilegt.“

Aðspurð hvort hún verði ekki mögulega alltof þreytt til að hlaupa maraþon helgina á eftir svarar Halldóra: „Jú en þá bara labba ég þetta. Markmiðið er bara að klára. Ég held að ég verði samt ekkert of þreytt. Ég ætla að hlaupa og hafa gaman að því.“

Auk skemmtanagildis hlaupsins og löngunar til að láta gott af sér leiða finnur Halldóra fyrir ákveðinni skyldu til að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni.

„Ég vinn hjá íslandsbanka en bankinn heitir á hvern starfsmann sem tekur þátt. Mér finnst vera skylda mín sem starfsmaður bankans að taka þátt.“

Til að styrkja framtak Halldóru má finna upplýsingar um hlaupið á hlaupastyrkur.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert