Berghlaupið varð vegna snjókomu

Úrkoma fyrir norðan var 80% yfir meðallagi og hafði hún …
Úrkoma fyrir norðan var 80% yfir meðallagi og hafði hún mikil áhrif á berghlaup í Öskju. mbl.is/Sigurður Bogi

Berghlaupið í Öskju má sennilega rekja að miklu leyti til veðráttunnar í vetur, en í október var tvöföld meðalúrkoma á Akureyri. Þetta segir Páll Bergþórsson veðurfræðingur.

„Á haustin er jarðvegurinn heitastur og kominn nálægt hámarki í september. Mánuði síðar kemur svo mikil snjókoma og þegar það snjóar svona mikið á tiltölulega hlýjar skriður, þá kemst frostið ekki niður fyrir snjónum. Kemst ekki í gegn þannig að það verður mjög frostlítið í jörðinni í skriðunum yfir veturinn allan,“ segir Páll.

Hann segir að ganga megi út frá því að svipuð úrkoma hafi verið á Öskju eins og á Akureyri, en hún var 80% umfram meðallag. Þegar hlýnar í veðri á vor- og sumarmánuðum verður síðan mikil leysing sem gengur tiltölulega vel niður í lítt frosnar skriðurnar. „Þá rennur þessi mikli snjór niður og berghlaupið verður,“ segir Páll.

Hann segir að í berghlaupi í Kinnarfjöllum árið 2012 hafi sömu skilyrði verið og í Öskju núna. „Þá fór að snjóa mikið í fjöllin og jörðin var heit. Svo um vorið þegar fer að hlýna fer vatnið niður í jarðveginn og þá verður þessi mikla skriða sem er svolítið einstök,“ segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert