Þorbergur langfyrstur fyrir norðan

Þorbergur Ingi er hér fyrir miðju, en með honum eru …
Þorbergur Ingi er hér fyrir miðju, en með honum eru Gunnar Viðar Gunnarsson og Finnur Dagsson. Mynd/Jónas Reynir Helgason

Þorbergur Ingi Jónsson sigraði fjögurra skóga hlaupið í Fnjóskadal í dag. Hann var 39 mínútum á undan næsta manni. Þorbergur er í stuði þessa dagana, en fyrir tveimur vikum sigraði hann Laugavegshlaupið.

Þetta er í fjórða skiptið sem hlaupið fer fram en það er björgunarsveitin Þingey sem stendur fyrir hlaupinu. Hlaupnar voru fjórar vegalengdir, 4,3 kílómetrar, 10,3 kílómetrar, 17,6 kílómetrar og 30,6 kílómetrar. 

„Hlaupið gekk alveg rosalega vel og veðrið lék við okkur. Þetta hlaup fer stækkandi ár frá ári og fólk kemur hingað víðs vegar að til þess að hlaupa,“ segir Ósk Helgadóttir skipuleggjandi hlaupsins. Í ár hlupu 91 um skógana, 73 hlupu á tímatöku og 18 tóku þátt í skemmtiskokkinu.

Óhætt er að segja að Þorbergur Ingi Jónsson hafi komið, séð og sigrað en þetta var í þriðja skipti sem hann tekur þátt og hleypur 30 kílómetra. Síðast hljóp hann árið 2012 á tímanum 1 klukkustund, 55 mínútur og 5 sekúndur en í ár bætti hann tímann og hljóp á 1 klukkustund, 54 mínútum og 29 sekúndum. 

Sigurvegari í 10,3 kílómetrahlaupi karla var Björn Snær Atlason, en hann hljóp á 45 mínútum og 21 sekúndu. Í kvennaflokki sigraði Edda Steingrímsdóttir á tímanum 51 mínútur og 34 sekúndur.

Í 17,6 kílómetraflokki var Elma Eysteinsdóttir sneggst á 1 klukkustund, 29 mínútum og 35 sekúndum en í karlaflokki var Ingvi J. Ingvason fyrstur á tímanum 1 klukkustund, 23 mínútur og 39 sekúndur.

Rakel Káradóttir kom fyrst í mark kvenna í 30,6 kílómetrahlaupi á 2 klukkustundum, 43 mínútum og 39 sekúndum og af körlunum var Þorbergur Ingi Jónsson fyrstur eins og áður sagði á tímanum 1 klukkustund, 54 mínútur og 29 sekúndur.

Hart var barist í hlaupinu.
Hart var barist í hlaupinu. Mynd/Jónas Reynir Helgason
Aldrei hafa fleiri hlaupið fjögurra skóga hlaupið, en 91 keppandi …
Aldrei hafa fleiri hlaupið fjögurra skóga hlaupið, en 91 keppandi tók þátt. Mynd/Jónas Reynir Helgason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert