Aron og Sæþór fljótastir á Húsavík

Keppendur ræstir af stað í Botnsvatnshlaupinu.
Keppendur ræstir af stað í Botnsvatnshlaupinu. Ágúst Sigurður Óskarsson

Hinn 13 ára gamli Aron Heimisson og hinn 18 ára gamli Snæþór Aðalsteinsson voru fljótastir hlaupara í Botnsvatnshlaupi Landsbankans á Mærudögum á Húsavík í gær. Margt er um manninn á Mærudögum og 91 keppandi tók þátt í hlaupinu í blíðskaparveðri.

Boðið var upp á 2,6 kílómetra og 7,6 kílómetra hlaup umhverfis Botnsvatn og niður með Búðará í skrúðgarðinn á Húsavík.

Í 2,6 kílómetra hlaupinu kom Aron Heimisson fyrstur í mark á 10 mínútum og 55 sekúndum. Sneggst kvenna var Dagný Björk Aðalsteinsdóttir á 13 mínútum og 29 sekúndum.

Snæþór Aðalsteinsson var hlutskarpastur í 7,6 kílómetra flokki en hann kom í mark á tímanum 31 mínúta og 12 sekúndur. Fljótust kvenna var Valgerður Sæmundsdóttir á 36 mínútum og 23 sekúndum.

Keppendur á Húsavík voru á öllum aldri en elst var hin 67 ára Elín Hjaltadóttir sem hljóp 7,6 kílómetra á glæsilegum tíma 47 mínútum og 4 sekúndum. Yngst var vagnfarinn Anna Lísa Guðmundsdóttir, sem fædd er árið 2013, en hún fór 2,6 kílómetra á 22 mínútum og 35 sekúndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert