Búast við hviðum yfir 30 m/s

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Rax

Búist er við suðaustan vindi þrettán til átján metra á sekúndu og rigningu suðvestantil á landinu í nótt og hviðum yfir þrjátíu metra á sekúndu við fjöll. Í tilefni af því bendir Veðurstofan á að varasamt sé fyrir ferðafólk með aftanívagna að vera á ferð.

Um þrjúleytið í dag var hæg breytileg átt á landinu. Allvíða var léttskýjað á Norðaustur- og Austurlandi en stöku skýrir. Þoka var víða á Austfjörðum en annars staðar skýjað að mestu. Hiti var á bilinu átta til nítján stig, svalast á Dalatanga en hlýjast á Húsavík, þar sem Mærudagar fóru fram um helgina.

Spáð er hægri breytilegri átt, skýjað með köflum og sums staðar smáskúrum. Það mun ganga í suðaustan 10-18 m/s með rigningu undir miðnætti, hvassast suðvestantil, en hægari suðlæg átt og yfirleitt þurrt norðaustanlands. Á morgun mun smám saman draga úr vindi. Hiti verður á bilinu tíu til 22 stig, hlýjast norðaustanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert