Byggir verk á loftslagsbreytingum

Útlínur hitaplattans. Ysti plattinn sýnir jökullinn núna. Svo minnkar hann.
Útlínur hitaplattans. Ysti plattinn sýnir jökullinn núna. Svo minnkar hann.

„Hugmyndin að hitaplöttunum kviknaði fyrir ári og hef ég hugsa mikið um hvernig ég ætti að hanna þá og koma þeim á framfæri, ,“ segir hönnuðurinn Anna Diljá Sigurðardóttir um verk sitt sem hún byggir á Hofsjökli og áhrifum loftlagsbreytinga á hann næstu 300 árin.

Anna Diljá hannaði hitaplatta sem er í raun fimm samsettir plattar sem sýna hvernig Hofsjökull mun líklega hopa næstu 300 árin. Plattarnir eru gerðir úr 9 mm hitaþolnum krossviði og yfirborð þeirra er hvítt eins og snjórinn á jöklinum. Þegar plattarnir eru teknir í sundur má sjá hve stór hluti jökulsins tapast á hverju tímabili og jafnframt þá ógn sem jöklinum starfar af hlýnandi loftslagi. 

Ysti plattinn sýnir jökullinn eins og hann er núna, næsti árið 2150, síðan 2200, 2250 og svo sýnir sá innsti líklega ásýnd jökulsins 2300.

Skemmtilegt og lærdómsríkt ferli

Eftir að Anna Diljá fékk hugmyndina að plöttunum sótti hún um nokkra styrki til þess að geta hannað þá og þróað. Ekkert kom þó út úr því fyrr en hún sótti um Skapandi sumarstarf hjá Kópavogsbæ í sumar. „Þetta er frábært framtak hjá Kópavogsbæ,“ segir Anna Diljá. „Með því veitir bærinn 25 ungmennum tækifæri til þess að vinna að listum sínum og ég hef lært og kynnst alveg ótrúlega miklu á þessum tveimur mánuðum.“

Anna Diljá útskrifaðist frá listnámsbraut Fjölbrautaskólans í Garðabæ árið 2012. Að sögn Önnu Diljár hefur hönnun hitaplattanna verið skemmtilegt og lærdómsríkt ferli. „Ég er búin að kynnast ýmiskonar tækni á þessum tíma. Ég byrjaði á því að leysiskera plexigler og krossvið og prufaði svo að fræsa kork en endaði á því að vatnsskera krossvið til að fá fallegan og mjóan skurð.“ Fyrirtækið Rafnar í Kópavogi hefur aðstoðað Önnu Diljá við að vatnsskera plattana.

Málefni sem kemur öllum við

Með plöttunum fylgir bæklingur sem útskýrir loftlagsbreytingar og segir sögu Hofsjökuls. Sá texti var skrifaður af dr. Guðfinnu Th. Aðalgeirsdóttur og dr. Sigurði Reyni Gíslasyni frá Háskóla Íslands ásamt dr. Tómasi Jóhannessyni frá Veðurstofu Íslands og byggist m.a. á rannsóknum þeirra. Umbúðirnar og bæklinginn hönnuðu Anna Diljá og Júlíus Valdimarsson, en Júlíus er efnilegur nýútskrifaður grafískur hönnuður sem vinnur einnig hjá skapandi sumarstörfum í Kópavogi.  

„Ég stefni að því að koma plöttunum í framleiðslu og að hafa bæklinginn á fleiri tungumálum. Það þarf að miðla þessu til fleiri en Íslendinga þar sem málefnið kemur öllum við,“ segir Anna Diljá. 

Loftslagsbreytingar alvarlegt umhverfismál

Spurð um ástæður þess að Anna Diljá notaði loftlagsbreytingar og áhrif þeirra í hönnun sinni segir hún að þær séu alvarlegt umhverfismál og plattarnir séu hennar leið til þess að skapa umræðu um loftslagsbreytingar og komandi framtíð. Með bráðnun jökla hækkar sjávarborð, fallegt landslag hverfur og vatnsbúskapur breytist.  

„Það hefur verið mikið talað um þessi málefni í fjölmiðlum, en þegar haldið er á hitaplöttunum og þeir teknir í sundur þá áttar fólk sig kannski betur á því hversu hröð og mikil breyting mun verða á næstu 300 árum. Ég ferðast mikið um Ísland og hef alltaf heillast af landinu okkar og vil leggja mitt af mörkum til umræðunnar og samtímis búa til fallega heimilisvöru.“

Anna Diljá mun hefja nám við sjónlistardeild Myndlistarskólans í Reykjavík í haust. Jafnframt mun hún vinna að því að koma hitaplattanum í almenna sölu. „Þetta er í þróunarferli núna en ég er komin með vöruna í hendurnar. Draumurinn er að koma þessu á markað.“

Anna Diljá Sigurðardóttir
Anna Diljá Sigurðardóttir Mynd úr einkasafni
Suðausturhluti Hofsjökuls. Mynd tekin úr UAVSAR-flugvél NASA í júní 2012.
Suðausturhluti Hofsjökuls. Mynd tekin úr UAVSAR-flugvél NASA í júní 2012. Ljósmynd/NASA/Brent Minchew
Hér sjást plattarnir í notkun.
Hér sjást plattarnir í notkun.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert