Erlendur ferðamaður í sjálfheldu

mbl.is/Ernir

Erlendur ferðamaður er nú í sjálfheldu á lítilli syllu í Ólafsfjarðarmúla, nokkuð norðan við gangamunnan. Björgunarsveitamenn frá Dalvík eru komnir á svæðið og eru í kallfæri við manninn en komast ekki að honum.

Hann er ekki slasaður en er að verða nokkuð kaldur. Sérhæfðir fjallabjörgunarmenn frá Akureyri eru á leiðinni með meiri búnað til að komast að honum. Það var ferðafélagi mannsins sem óskaði eftir aðstoð, samkvæmt upplýsingum frá slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Uppfært klukkan 22:19:

Sérhæfðu fjallabjörgunarmennirnir eru komnir til ferðamannsins. Nú er verið að undirbúa svokallaða línubjörgun, þar sem meðal annars verða settar upp tryggingar fyrir línu til að tryggja öryggi bæði ferðamannsins og björgunarmanna, að sögn Skúla Árnasonar, formanns svæðisstjórnar björgunarsveita á Norðurlandi. Björgunarmennirnir koma frá björgunarsveitinni Súlum á Akureyri sem og frá Dalvík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert