Meirihluti báta fylgdi settum reglum

Eins og tíðkast hefur undanfarin ár sinna Landhelgisgæslan og Fiskistofa sameiginlega fiskveiðieftirliti á grunnslóð. Þetta sumarið fór eftirlitið fram dagana 18. til 26. júní og 7. til 17. júlí. Farið var um Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Húnaflóa og Skagafjörð að þessu sinni, eftir því sem fram kemur á vef Fiskistofu.

Þar segir að farið hafi verið á slöngubátnum Leiftri en eftirlitsmenn Fiskistofu fóru um borð í báta til að kanna meðal annars afladagbækur, veiðileyfi, afla, aflasamsetningu, aflameðferð og veiðarfæri. Landhelgisgæslan kannaði lögskráningu og haffærisskírteini bátanna auk þess að hafa umsjón með bátnum Leiftri.

Alls var farið um borð í 181 bát í sumar eða 86 fleiri en árið 2013, þar af 153 strandveiðibáta, sextán aðra handfærabáta, tvo rækjubáta, sex línubáta, snurvoðarbát, grásleppubát, netabát á þorskveiðum og einn bát á sæbjúgnaveiðum.

Meirihluti þeirra báta sem sættu eftirliti fylgdu settum reglum og fengu eftirlitsmenn góðar viðtökur. Þó voru gerðar 35 brotaskýrslur eða í um 19% tilvika. Í fyrra var þetta hlutfall tæp 14% þar sem þrettán brotaskýrslur voru skráðar vegna eftirlits í 95 bátum.

Flestar brotaskýrslur voru vegna brota á afladagbók eða 33 talsins. Mikið var um að útfyllingu afladagbóka væri ábótavant, síðustu róðrar höfðu ekki verið skráðir eða afladagbók var ekki um borð. Ein brotaskýrsla var gerð vegna brottkasts, en í því tilviki sáu eftirlitsmenn að öll tindabikkja var slegin af línu ásamt smáfiski. Brotaskýrsla var svo gerð vegna útrunnins grásleppuveiðileyfis.

Að auki fóru fram lengdarmælingar í átta bátum, að því er segir í fréttinni. Mældir fiskar voru 1.811 og leiddi það til þriggja skyndilokana, en slíkar skyndilokanir eru til verndar smáfiski á Íslandsmiðum.

„Það er samdóma álit allra sem að eftirlitinu komu að samstarf Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar af þessu tagi sé mikilvægt og skili góðum árangri í veiðieftirliti,“ segir að lokum í frétt Fiskistofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert