Um 8000 gestir á Landsmóti skáta

Mikil stemning var á landsmótinu.
Mikil stemning var á landsmótinu. Jón Óskar

Landsmóti skáta lýkur í dag á Hömrum á Akureyri. Um 2.000 þátttakendur voru á mótinu en gestir voru á bilinu 6-8 þúsund að sögn Rakelar Ýrar Sigurðardóttur skipuleggjanda mótsins. Um 600 erlendir skátar voru á mótinu frá um 20 þjóðlöndum.

„Það eru allir brosandi hringinn, þetta gekk svo vel og við fengum alveg geggjað veður. Núna er ábyggilega hátt í 20 stiga hiti og nánast logn en það er búið að vera þannig nánast alla vikuna,“ segir Rakel Ýr. 

Yfirskrift hátíðarinnar var Fortíð, nútíð framtíð og tók dagskráin mið af því. Í fortíðinni var víkingaþema þar sem þátttakendur lærðu meðal annars að skjóta úr boga og að gera sér Þórshamar. Í nútíðinni var meðal annars járnsmíði og klifur og í framtíðinni var, eðlilega, boðið upp á tölvuleikjaforritun.

„Við vorum einnig með útivistardag þar sem allir gátu valið sér eitthvað að gera. Margir völdu til dæmis að fara í gönguferð eða hjólatúr. Það var einn dagur þar sem hóparnir fóru á Akureyri og þá var þematengd dagskrá þar. Hægt var að fara á söfnin og svo fóru einhverjir í parkour og bryggjustökk. Þetta var mjög fjölbreytt og allir gátu fundið sér eitthvað við hæfi,“ segir Rakel.

Hátíðinni var slitið í gærkvöldi með hátíðarkvöldvöku þar sem mótið var gert upp. „Krakkar sem tóku þátt í hæfileikakeppninni okkar voru með atriði en svo þakkaði bandalagsstjórn mótstjórn fyrir vel unnin störf. Mótstjórinn Fríður Finna Sigurðardóttir afhenti mér, næsta mótstjóra, landsmót. Þá byrjum við að skipuleggja næsta mót,“ segir Rakel en að því loknu var Landsbjörg með flugeldasýningu.

Raddböndin voru þanin á kvöldvökunni í gær.
Raddböndin voru þanin á kvöldvökunni í gær. Jón Óskar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert