Flýgur loftbelg yfir Íslandi

Svisslendingurinn, Íslandsvinurinn og loftbelgjaáhugamaðurinn Thomas Seiz flýgur um þessar mundir loftbelg um landið, en hann var sá sem flaug loftbelgnum sem sást fyrir ofan Mývatn í gær, Mývetningum til mikillar undrunar.

„Þetta er áhugamál hjá mér. Mér finnst skemmtilegt að horfa niður úr loftbelgnum og njóta kyrrðarinnar í loftinu,“ sagði Thomas í samtali við mbl.is í dag. Hann hefur stundað loftbelgjaflug í tuttugu ár og fer undanfarið um tuttugu ferðir árlega. „Það er mjög spennandi hér því það er miklu hættulegra og erfiðara að fljúga hér en í Sviss.“

Thomas segir að þar komi til færri vegir til að þjónusta loftbelgi og breytilegri vindátt. „Spáin er líka ekki eins nákvæm og í Sviss, því nálægt sjónum er erfiðara að gefa nákvæma spá. Maður veit til dæmis aldrei hvernig vindáttin mun breytast.“ 

Thomas flaug líka sambærilegum loftbelg hérlendis árið 2002 en mest hefur hann flogið um Ítalíu, Sviss og Frakkland. Helsta muninn á því að fljúga belgjunum nú og fyrir tólf árum segir hann vera batnandi veðurfar. „Það er hlýrra núna en fyrir tólf árum. Nú er ég líka aðeins eldri en þá og það gengur miklu betur því ég hef meiri reynslu.“

Belgurinn er í eigu tölvufyrirtækisins Inserto, sem Thomas rekur í Sviss, en auk þess rekur hann ferðaþjónustu að Nolli í Höfðahverfi á Norðurlandi. Fjórum mánuðum ársins ver hann að jafnaði á Íslandi og hefur hann komið til landsins árlega síðan hann steig fyrst á íslenska grund 1994.

Meðfylgjandi myndir leyfði Thomas góðfúslega að yrðu birtar með fréttinni, en hann tók þær úr loftbelgnum á einum af flugferðum sínum. Aðrar eru af flugferðum hans 2002.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert