Miklu skemmtilegra án áfengis og vímuefna

Rúnar Freyr Gíslason - „Hátíðin er ekki bara fyrir alkóhólista …
Rúnar Freyr Gíslason - „Hátíðin er ekki bara fyrir alkóhólista og aðstandendur þeirra, heldur fyrir alla sem vilja vera edrú þessa helgi, og það eru margir.“ Morgunblaðið/Kristinn

Edrúhátíð SÁÁ er helsti skemmtanakosturinn fyrir þá sem vilja skemmta sér edrú með börnunum eða njóta áfengislauss lífstíls um verslunarmannahelgina, að sögn Rúnars Freys Gíslasonar, framkvæmdastjóra hátíðarinnar. 

„Edrúhátíðin er skýr valkostur, og einn af fáum, sem fólk hefur ef öll fjölskyldan vill hafa gaman í alúðlegu og öruggu umhverfi,“ segir Rúnar í samtali við mbl.is. „Edrúhátíð er haldin svo fólk hafi þess kost. Hún er ekki bara fyrir alkóhólista og aðstandendur þeirra, heldur fyrir alla sem vilja vera edrú þessa helgi, og það eru margir.“

Hátíðin hefur verið haldin yfir tuttugu sinnum og fer vaxandi. „Fyrst var þetta bara lítil krúttleg hátíð en í fyrra voru meira en 1500 manns hjá okkur. Þetta er alltaf að stækka og dagskráin er alltaf að verða veglegri.“ Dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt og á henni má hlýða á úrval tónlistarmanna á borð við KK, Mammút og Sísí Ey. Hátíðin er haldin á Laugalandi í Holtum.

Fyllerí oftast fylgifiskur hátíða

Aðspurður hvort aðrar hátíðir snúist of mikið um drykkju svarar Rúnar:

„Klárlega! Drykkjan er svakalega mikið atriði. Fyllerí er algjör fylgifiskur nánast allra annarra útihátíða og öll þau vandamál sem koma þar í kjölfarið.“ Þar nefnir Rúnar ofbeldi, nauðganir og vanlíðan í tengslum við drykkjuna. „Ég tala ekki einu sinni um börnin sem þurfa að horfa uppá þessa vitleysu.“

Rúnar segir leikinn oft til þess eins gerðan að drekka. „Fyrir mörgum er útihátíð fyllerí. Oft er leikurinn til þess gerður að fara eitthvert og detta í það, en einsog við segjum alltaf hjá SÁÁ er það óþarfi.

Áfengi og vímuefni eru óþarfi því það er miklu skemmtilegra án þeirra.“

Alveg jafn mikið stuð

Elísabet Eyþórsdóttir í Sísí Ey hefur áður troðið upp á hátíðinni og hyggst endurtaka leikinn í ár. „Það var æðislegt. Ég hvet alla til að fara á þessa hátíð,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Hún telur alveg jafn mikið fjör í vímulausum áhorfendasal og annarsstaðar. „Ég held að fólk dansi alveg jafn mikið, sama hvort það er edrú eða ekki. Þegar ég hef verið fannst mér fólk í alveg jafn miklu stuði, ef ekki meira.“

Systurnar í Sísí Ey munu taka órafmagnaða tónleika á hátíðinni í ár og syngja og spila lög sín á kassagítar. Sveitin spilar einnig öll á Innipúkanum í Reykjavík á laugardaginn.

Tónleikar, dans og leikur með meiru

Rúnar lýsir því hvernig dagskrá Edrúhátíðarinnar er sniðin að fjölbreyttum smekk gesta.

„Leikhópurinn Lotta mætir aftur til okkar og nú með glænýtt leikrit, Sniglabandið heldur hressilegt barnaball og íþróttaálfurinn kemur líka í heimsókn,“ er meðal þess sem Rúnar telur upp fyrir börnin.

„Svo er líka kvölddagskrá. KK og Maggi Eiríks spila, Mammút, Sísí Ey systurnar koma og taka nokkur lög og margir trúbadorar á borð við Benna Hemm Hemm og miklu fleira.“

Þá nefnir Rúnar jóga, indíánadans og zúmba fyrir þá sem vilja næra líkama og sál, mót í fjölskyldubrennó, nudd, spákonu, töframanninn Jón Arnór úr Ísland got talent þáttunum ásamt fleiru sem verður í boði.

21 stigs hiti, logn og þurrkur

„Edrúhátíðin er líklega eina útihátíðin sem getur lofað 21 stigs hita, logni og þurrki,“ segir Rúnar, en rigningu er víða spáð um landið. „Við höfum nefnilega möguleika á að halda alla dagskránna í frábæru íþróttahúsi á Laugalandsskóla sem er á svæðinu.“

Aðgangseyrir er 6.000 krónur fyrir alla helgina og 2.500 krónur fyrir dagpassa. Þá býðst þeim sem eru 14 ára eða yngri að njóta hátíðarinnar án endurgjalds.

KK og Maggi Eiríks - Fjöldi tónlistaratriða verður á hátíðinni
KK og Maggi Eiríks - Fjöldi tónlistaratriða verður á hátíðinni Sent af SÁÁ
Sísí Ey - Systurnar í Sísí Ey taka órafmagnaða tónleika …
Sísí Ey - Systurnar í Sísí Ey taka órafmagnaða tónleika á hátíðinni. Af Facebook síðu Sísí Ey
Leikhópurinn Lotta - Nýja sýning leikhópsins, Hrói Höttur, verður sýnd …
Leikhópurinn Lotta - Nýja sýning leikhópsins, Hrói Höttur, verður sýnd á hátíðinni. Sent af SÁÁ
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert