Enginn óhultur fyrir sjálfsvígshugsunum

Guðrún Jóna, móðir Orra, segir umræðuna um sjálfsvíg vera komna …
Guðrún Jóna, móðir Orra, segir umræðuna um sjálfsvíg vera komna skammt á veg hér á landi. Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, Ómar Ingi Bragason og sonur þeirra, Bragi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fyrir fjóru og hálfu ári misstu hjónin Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir og Ómar Ingi Bragason 16 ára son sinn Orra í sjálfsvígi. Orri hafði þá verið eina önn í Menntaskólanum í Reykjavík, stóð sig vel þar og einnig á fótboltavellinum en hann æfði fótbolta með 2. flokki FH.

Eftir andlát Orra stofnuðu foreldrar hans minningarsjóð sem vinnur að forvörnum gegn sjálfsvígum og styður aðstandendur og eftirlifendur sjálfsvíga. „Sjóðurinn var stofnaður í örvæntingu, ég gat ekki hugsað mér að hafa stofuna fulla af blómum,“ segir Guðrún Jóna en hún hyggst hlaupa fyrir sjóðinn í Reykjavíkurmaraþoninu þann 23. ágúst.

Sjóðurinn hefur meðal annars styrkt gerð síðunnar sjalfsvig.is og einnig hefur sjóðurinn stuðlað að þýðingu og útgáfu bókarinnar Þrá eftir frelsi. Sjóðurinn stefnir að því að vinna áfram að markmiði sínu en í hverjum mánuði falla þrír til fjórir einstaklingar fyrir eigin hendi hér á landi.

Eftir andlát Orra fannst Guðrúnu Jónu og eiginmanni hennar gott að hafa aðgang að lesefni um sjálfsvíg og stóð bókin Dying to be free eftir Beverly Cobain upp úr. Þau létu þýða bókina og ber hún heitið Þrá eftir frelsi.

Erfitt að koma auga á hættumerki

Guðrún Jóna segir umræðuna um sjálfsvíg vera komna skammt á veg hér á landi og finnst  vanta opinskáa umræðu um málefnið. Hún telur að almennt sé litið á að þeir sem taki eigið líf hafi lent í stórum áföllum í lífinu. Tilhneiging sé til að reyna að finna ástæðu fyrir því sjálfsvíginu en þetta er ekki svo einfalt.

Í tilviki Orra var ekki hægt að finna neina ástæðu og því virðist sem svo að enginn sé óhultur fyrir sjálfsvígshugsunum en það er ósköp gott fyrir þann sem ekki hefur misst í sjálfsvígi að hugsa sem svo að það er bara svona eða hinsegin fólk, ekki mitt fólk sem tekur sitt eigið líf, segir Guðrún Jóna. 

Oft getur verið erfitt að koma auga á hættumerki hjá þeim sem gera síðar tilraun til sjálfsvígs eða ná að svipta sig lífi. „Við getum samt örugglega gert betur, það eru margir litlir hlutir sem má gera betur,“ segir hún.

Tók inn mikið magn af lyfjum en sá að sér

Atvik nokkrum mánuðum áður en Orri svipti sig lífi kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti. Hann fór í lyfjaskáp foreldra sinna þegar þau voru ekki heima og gleypti mikið magn af lyfjum. Hann sá að sér, hringdi sjálfur í sjúkrabíl og var fluttur upp á spítala þar sem lyfjunum var dælt upp úr honum. Hann dvaldi í nokkra daga á sjúkrahúsi og var því næst sendur á BUGL þar sem hann dvaldi aðeins eina nótt.

Guðrún Jóna segir að sonur sinn hafi séð mikið eftir þessu og sannfært foreldra sína um að þetta hefði aðeins verið rugl í honum og fór hann fljótlega aftur í skólann og á æfingar. Orri gleypti töflurnar í október 2009 og féll fyrir eigin hendi í janúar 2010.

Í millitíðinni, yfir jólin, var hann þyngri á fætur á morgnana og gerðu foreldrar hans þá kröfu um að hann færi til sálfræðings eða tæki lyf. Hann afþakkaði heimsókn til sálfræðingsins en samþykkti lyfin. Næstu dagar voru góðir, fjölskyldan fór í skíðaferð í lok janúar en viku seinna var Orri látinn.

Hefði þurft meiri stuðning eftir tilraun til sjálfsvígs

Guðrún Jóna segir að Orri hefði þurft meiri stuðning eftir að hann tók töflurnar, eitthvað ferli hefði þurfti að taka við. Sá sem einu sinni reyni að taka sitt eigið líf, sé líklegri en aðrir til að reyna aftur.

Hann hefði ekki átt að hafa val um að fara til sálfræðings eða taka lyf. Líkt og sjúklingur með krabbamein, hafi hann nauðsynlega þurft að hjálp að halda. Viðurkennt er að þeir sem fá krabbamein þurfi aðstoð og þiggi hana en því miður sé viðhorfið til þeirra sem líður illa andlega og þurfa aðstoð annað.

„Orri vildi ekki láta fréttast að hann hefði lent á spítala eða á BUGL og tók eftirmeðferðin tíma frá náminu og íþróttum,“ segir Guðrún Jóna. „Hann sagði þó bestu vinum sínum frá veikindunum en það er ekki hægt að neyða fólk til að þiggja hjálp. Mögulega hefði heimsókn á spítalann eða á BUGL frá eitthverjum sem hefði lent í sömu stöðu hjálpað honum til að sjá hlutina í öðru ljós, eygja leið sem hann sá ekki sjálfur.“

Fengu góða aðstoð eftir andlátið

Hér á landi falla tæplega fjörtíu einstaklingar fyrir eigin hendi á hverju ári. Guðrún Jóna segir að vissulega sé hægt að nýta fjármuni úr sjóði líkt og Minningarsjóði Orra Ómarssonar til að sinna verkefnum en heilbrigðiskerfið þurfi einnig að vera í stakk búið til að sjá um forvarnir sem þessar.

Í Noregi er til að mynda svokölluð umferðarstofa sjálfsvíga en þar sér starfsfólkið meðal annars um að útbúa fræðsluefni um forvarnir sjálfsvíga og heimsækja skóla og útbúa aðgerðaráætlanir fyrir framhaldsskóla og grunnskóla sem tekur á því hvernig best er að bregðast við, falli nemandi fyrir eigin hendi.

„Við hjónin vorum heppin og fengum held ég alla þá aðstoð sem við hefðum getað fengið eftir áfallið. Ég fór til geðhjúkrunarfræðings, við fórum saman í hóp á vegum Nýrrar dögunar þar sem foreldrar sem höfðu misst börn, ekki bara í sjálfsvígi heldur í slysum og veikindum, komu saman í nokkur skipti. Það hvernig missirinn kom til skipti engu máli, sorgin og vanlíðanin er sú sama,“ segir Guðrún Jóna.

Hún segir að ómetanlegt hafi verið að hitta aðra í sömu stöðum, enginn nema sá sem hefur misst barn geti sett sig í þau spor. „Við vorum líka heppin að vinnuveitendur okkar höfðu fullan skilning á aðtæðunum, fengu faglega ráðgjöf um hvernig ætti að taka á móti okkur þegar við snérum til baka og við fengum þann tíma sem við þurftum til að púsla okkur saman. Það leið langur tími þar til við urðum vinnufær,“ segir Guðrún Jóna.

„Eftir að við misstum Orra hefur verið haft samband við okkur og við höfum talað við fólk sem hefur misst á sama hátt. Við höfum miðlað af okkur reynslu, lánað bækur og reynt að styðja þannig við aðstandendur.“

Allt uppi á borðinu eftir að Orri lést

Guðrún Jóna segir að allt hafi verið uppi á borðinu eftir að Orri lést. „Það var aldrei feluleikur með hvað gerðist,“ segir hún. „Það hjálpaði okkur og þeim sem voru í kring, bróður hans, vinum hans, skólafélögum og  liðsfélögunum. Ég hef hinsvegar heyrt að það megi gera betur þegar fólk kemur aftur í sína rútínu eftir að hafa misst í sjálfsvígi.“

Hún nefnir sem dæmi að að allir votti samúð sína ef einstaklingur missir foreldri sitt í slysi en taki foreldri líf sitt komi fyrir að fólk láti eins og ekkert hafi í skortist eða enginn hafi dáið. „Þetta er mjög erfitt að upplifa. Það vilja allir fá samúðarknús sama hvernig andlát ber að,“ segir Guðrún Jóna.

„Ég er ekki viss um að allir fái sömu þjónustu og við fengum eða hafi bolmagn til að sækja sér hana. Margt má eflaust gera betur og má líta til Noregs í því samhengi þeir eru að gera vel. Við erum komin stutt í þessu, við vitum ekki hvað veldur því að einstaklingur ákveður skyndilega að taka sitt eigið líf,“ segir Guðrún Jóna að lokum. 

Það er mín trú að ef við nálgumst andlega erfiðleika og geðsjúkdóma sem efnaskiptasjúkdóm þá myndu áherslur og viðhorf breytast og okkur yrði meira ágengt í að fækka sjálfsvígum og halda betur utan um þá sem eftir sitja ,“ segir Guðrún Jóna að lokum.

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir hleypur fyrir Minningarsjóð Orra Ómarssonar. 

Minningarsjóðurinn á hlaupastyrkur.is

Ómar Ingi Bragason, Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir og sonur þeirra, Bragi.
Ómar Ingi Bragason, Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir og sonur þeirra, Bragi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Bragi og Bríet Ómarsbörn, systkini Orra.
Bragi og Bríet Ómarsbörn, systkini Orra. mbl.is/Ómar Óskarsson
Orri Ómarsson spilaði fótbolta með FH.
Orri Ómarsson spilaði fótbolta með FH. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert